Allt að 97% verðhækkun á nýjum námsbókum

Í verðlagseftirliti ASÍ kom fram að verð á flestum nýjum …
Í verðlagseftirliti ASÍ kom fram að verð á flestum nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla hafi hækkað milli ára þar sem mest hækkun var heil 97%. mbl.is/Árni Sæberg

Verð á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla hefur hækkað milli ára þar sem mest hækkun var heil 97%. Þetta kemur fram í samanburði Alþýðusambands Íslands á verðlagseftirlitskönnunum þess milli ára.

Fyrirtækin Penninn-Eymundsson, Mál og Menning og A4 hafa hækkað verð á flestum nýjum námsbókum sem voru í könnunum ASÍ í fyrra en Bókabúðin Iðnú lækkar hins vegar verð á öllum titlum sem skoðaðir voru frá fyrra ári.

Í frétt ASÍ kemur þó fram að fyrir kannanir sambandsins eru þau verð tekin niður sem eru í gildi á hverjum tíma og hafa tilboðsverð því áhrif á samanburð. Penninn-Eymundsson og A4 til að mynda voru með 25% afslátt af nýjum bókum þegar könnunin fór fram í fyrra og Bókabúðin Iðnú með 15% afslátt þegar könnun fór fram í ár.

Penninn-Eymundsson hækkar námsbækur fyrir framhaldsskóla í flestum tilfellum um og …
Penninn-Eymundsson hækkar námsbækur fyrir framhaldsskóla í flestum tilfellum um og yfir 65% milli ára og hjá A4 hækkar verðið í flestum tilfellum um 30% til 50%. mbl.is/Árni Sæberg

Hækkun mest 97%, næstmest 92%

Penninn-Eymundsson hefur hækkað verð námsbóka fyrir framhaldsskóla í flestum tilfellum um og yfir 65% milli ára og hjá A4 hækkar verðið í flestum tilfellum um 30% til 50%.

Mest var verðhækkunin á bókinni Almenn jarðfræði hjá A4, sem fór úr 4.199 krónum í fyrra upp í 8.289 krónur í ár. Því hækkaði bókin um heilar 4.090 króna eða 97%. Næst mesta hækkunin var á bókinni Bókfærsla 1 hjá Pennanum-Eymundsson en sú bók hækkaði úr 2.909 krónum í 5.599 krónur, á einu ári. Því var 2.690 krónu verðhækkun á bókinni eða 92%.

15-25% verðlækkanir hjá bókabúð Iðnú

Verðið lækkaði hins vegar hjá Bókabúðinni Iðnú um 15–25% á milli ára á öllum bókum. Mesta verðlækkun námsbókar í samanburðinum var á bókinni Lífeðlisfræði hjá Forlaginu Fiskislóð, sem lækkaði um 32%, úr 8.590 krónum í 5.884 krónur.

Borin voru saman verð á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla í könnunum verðlagseftirlits ASÍ þann 16. ágúst 2016 og 10. ágúst 2017. Í báðum könnunum var kannað verð í eftirtöldum verslunum: Pennanum-Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð, Bókabúðinni Iðnú Brautarholti, Mál og Menningu Laugavegi og á Heimkaup.is.

Nánari samanburð má sjá í töflu ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert