Erum að festa hraðakstur í sessi

Veggurinn er reistur er á milli Miklubrautar og Klambratúns.
Veggurinn er reistur er á milli Miklubrautar og Klambratúns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta rosalega ljótt til að byrja með,“ segir Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is. Pawel er ekki hrifinn af vegg sem rís nú milli Miklubrautar og Klambratúns en framkvæmdir hafa staðið yfir á Miklubraut í sumar.

Pawel segir að veggurinn minni hann á virki og bendir á að þetta sé svipaður veggur og sé á kafla þar sem Reykjanesbrautin fer í gegnum Garðabæ. 

Fallegra að líta inn á Klambratún en að horfa á múr

„Þetta gefur fólki þá tilfinningu að það sé statt á hraðbraut og þá keyra menn hraðar. Þetta gefur fólki ekki þá tilfinningu að það sé statt í borgargötu, þar sem fólk gengur yfir götuna. Mér finnst fallegra að líta inn á almenningsgarð en að horfa á múr,“ segir Pawel en hann fjallaði fyrst um málið á vefsíðu sinni.

„Ég játa að ég veit ekki alveg til hvers þessi veggur, sem á að heita hljóðvörn, er. Ekki býr neinn á Klambratúni sem mun njóta góðs af honum. En hann lokar götuna hins vegar af. Sá sem keyrir á þriggja akreina vegi með vegriði í miðjunni og vegg á hægri hlið finnst hann vera á hraðbraut. Ef hann sér enga gangandi vegfarendur, engin hús, engin börn, engin hjól, hvað gerir hann þá?“ spyr Pawel á vefsíðunni.

Bakvið vegginn má sjá glitta í körfu á Klambratúni.
Bakvið vegginn má sjá glitta í körfu á Klambratúni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgengi fyrir gangandi batnar ekki

Hann segir að vissulega komi prýðilegur hjólastígur norðanmegin Miklubrautar og það sé hið besta mál. „Hvað varðar aðgengi fyrir gangandi vegfarendur þá batnar það ekki. Það er göngustígur eins og hann var og ein gangbrautarljós, eins og áður. Þetta gefur enn þá meiri tilfinningu fyrir því að þarna sé fljót sem búið að girða af og maður megi ekki fara yfir nema á einhverjum fyrirframákveðnum landamærastöðvum.“

Pawel býst ekki við því að svipað yrði hjá nágrönnum okkar. „Ég sé ekki fyrir mér að þetta myndi gerast í miðborg Kaupmannahafnar; að menn myndi reisa vegg á Nørrebro til að girða gangandi umferð frá akandi umferð.“

Hrifnari af því að hafa fólk ofanjarðar

Pawel telur, eins og áður segir, að þetta muni auka umferð og hraða á Miklubraut. „Það er þekkt að það sem ræður hraða fólks er tilfinning fyrir hvernig umhverfið er. Ef gata er aðgreind með vegriði, allir bílar keyra í sömu átt og svo kemur veggur þá fer heilinn ósjálfrátt að tengja að þar sé öruggt að fara hraðar. Við erum að festa í sessi þessa hugmynd.“

Sjálfur segist þingmaðurinn ekki hafa neina fullkomna lausn fyrir svæðið. Hann teldi betra, þótt lausnin væri dýr, að grafa götuna niður og leyfa fólki að vera ofanjarðar.

Ég er almennt meira hrifinn af því að hafa fólk ofanjarðar en leyfa bílunum að keyra neðanjarðar. Þetta er þessi heildarásýnd. Fólk sem býr sunnan Miklubrautar veltir því fyrir sér hvort það eigi að senda börnin sín á Klambratún að leika, ég held að veggur hjálpi ekki til við það.“

Horft frá Klambratúni, framhjá veggnum yfir Miklubraut til suðurs.
Horft frá Klambratúni, framhjá veggnum yfir Miklubraut til suðurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert