Hissa á viðbrögðum Landspítala

Þórdís Ingadóttir, lögfræðingur og formaður félags áhugafólks um Downs heilkennið …
Þórdís Ingadóttir, lögfræðingur og formaður félags áhugafólks um Downs heilkennið segist hissa á því að Landspítala finnist tölfræði fósturskimana eftir Downs-heilkenni enn eðlileg. K100

Þórdís Ingadóttir, lögfræðingur og formaður félags áhugafólks um Downs-heilkenni ræddi við Magasínið á K100 um mikilvægi umræðu um skimun eftir Downs-heilkenni þar sem hún gagnrýndi meðal annars viðbrögð Landspítala.

„Þetta er afar erfið umræða en hún er mjög mikilvæg,“ sagði Þórdís. Fyrr í dag greindi Landspítalinn frá því að þær tölur um að öllum fóstrum með Downs-heilkenni sé eytt hér á landi séu ekki réttar.

 „Að sjálfsögðu er ekki öllum fóstrum eytt sem eru með Downs-heilkenni en tölfræðin hér sker sig svo sannarlega úr frá öðrum ríkjum,“ sagði Þórdís. Þessu til stuðnings greindi hún frá skýrslu heilbrigðisráðherra frá því í lok árs 2014 þar sem tölfræði sýndi að á árunum 2007 - 2012 hafi öllum fóstrum verið eytt sem voru greind með Downs-heilkenni.

Hissa á viðbrögðum Landspítalans 

Í viðtalinu talaði Þórdís meðal annars um þá gífulegu þátttöku í skimuninni en 85% þungaðra kvenna fara í skimun hér á landi. Í samanburði þá fara í Noregi aðeins konur yfir þrítugt í skimun, 50% kvenna velja að fara í skimun í Svíþjóð og aðeins 30% í Hollandi.

Landspítalinn sagði í dag að þetta væri allt saman eðlileg tölfræði og að þeir væru bara að anna eftirspurn kvenna. „Ég er bara hissa á þeirra viðbrögðum, að þeim finnst þetta ennþá eðlilegt. Mér finnst það alls ekki,“ sagði Þórdís.

Lækni ber skylda til þess að fjalla um skimun eftir Downs-heilkenni við fyrstu samskipti við móður en Þórdís sagði að með þessu gefi Landspítalinn sterk óbein skilaboð til verðandi mæðra.

Stór siðferðisleg umræða þurfi að fara fram

Hún lagði áherslu að ekki er verið að fordæma val kvenna. „Það sem við erum að vekja athygli á er þessi mismunun.“ Hún segir Landspítalann telja sig vera í þeirri stöðu að gefa ráðgjöf um það hvaða líf er þess virði að lifa eða ekki.

Þá vill hún fá inn í umræðuna um fósturskimun allt hitt sem hægt er að skima eftir með nútímatækni. „Það er hægt að greina svo margt annað líka og mun alvarlegra,“ sagði hún og bætti við að mikilvæg siðferðisleg umræða þyrfti að eiga sér stað um þessa hlið mála.

Sjáðu viðtalið við Þórdísi úr Magasíninu á K100.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert