Leiðakerfi Strætó í Google Maps

Leiðakerfi Strætó verður brátt aðgengilegt á Google Maps
Leiðakerfi Strætó verður brátt aðgengilegt á Google Maps mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Til stendur að færa leiðakerfi Strætó bs. inn í Google Maps-kortavefinn. Munu farþegar þá geta nálgast upplýsingar um bestu leið milli staða á einfaldan hátt á vef Google eða í Google Maps-forritinu í síma.

Almenningssamgangnakerfi Google inniheldur gögn frá um 18.000 borgum um allan heim, þar á meðal flestum stærri borgum Evrópu. Þjónustan er Strætó að kostnaðarlausu og segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, að hagsmunir Strætó og Google fari saman í þessum efnum.

Leiðakerfi Strætó er þegar aðgengilegt á heimasíðu fyrirtækisins og í smáforriti í síma. Aðspurður segir Guðmundur Google Maps höfða til fleiri en Strætó-appið, til dæmis erlendra ferðamanna. Ekki stendur þó til að hætta með Strætó-appið.

Villur seinkað ferlinu

Upphaflega var stefnt að því að þjónustan yrði í boði nú í sumar en ljóst að það mun ekki ganga eftir. „Google Maps notast við út á snið sem kallast GTFS. Við uppfærðum gögnin okkar í þetta kerfi fyrir um ári síðan og sáum þá tækifæri í Google Maps.

Það hafa hins vegar komið upp villur sem hugbúnaðarbirginn okkar er að laga. Það er ástæðan fyrir því að þetta er ekki farið að birtast,“ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Hann segir of snemmt að fullyrða hvenær leiðarkerfið verður orðið aðgengilegt þar, en vonar að það verði sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert