Sitja sennilega uppi með skemmdirnar

Svona lítur kirkjan út í dag en enn sér á …
Svona lítur kirkjan út í dag en enn sér á henni eftir skemmdarverk sem unnin voru á henni fyrir átta mánuðum síðan. mbl.is/Hjörtur J. Guðmundsson

„Við sitjum sennilega uppi með þessar skemmdir,“ segir Séra Svavar Al­freð Jóns­son, sókn­ar­prest­ur í Ak­ur­eyr­ar­kirkju. Enn sér á kirkjunni eftir að alvarleg skemmdarverk voru unnin á henni, fyrir átta mánuðum síðan. Ekki hefur tekist að þrífa krotið af og þá er ekki víst að söfnuðurinn eigi fyrir þeim viðgerðum sem nauðsynlegar eru. 

Í byrjun árs voru skemmdarverk unnin á kirkjunni þar sem fram­hlið og suður­hlið kirkj­unn­ar voru út­krotaðar. Síðan þá hefur séð á kirkjunni en þar fara fram giftingar, útfarir og skírnir svo eitthvað sé nefnt. „Auðvitað er maður ofboðslega sár yfir þessu virðingaleysi,“ segir Svavar.   

„Við hættum ekki fyrr en að kirkjan er komin í …
„Við hættum ekki fyrr en að kirkjan er komin í gott lag,“ segir Séra Svavar Al­freð Jóns­son, sókn­ar­prest­ur í Ak­ur­eyr­ar­kirkju. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Búin að reyna heilmikið

Söfnuðinum hefur ekki að tekist að ná krotinu af þrátt fyrir fjölmargar tilraunir: „Það er náttúrulega búið að reyna heilmikið,“ segir Svavar. „Við hættum ekki fyrr en að kirkjan er komin í gott lag. Því að hún er alveg yndisleg, þó hún sé með þessi ör, eins og er,“ segir hann.

Svavar segir að margir hafi látið sig málið varða: „Við erum búin að fá ofboðsleg viðbrögð. Fólk hefur verið að hringja í okkur alls staðar að af landinu, senda okkur tölvupósta og sms og það hefur verið rosalega notalegt að finna það hvað mörgum er umhugað um þessa kirkju“

Fólk hafi veitt þeim alls konar ábendingar um hvernig sé best að ná spreyinu af: „Alls konar allt frá sítrónuvatni og yfir í svona geim Star wars-græjur einhverjar!“ segir hann kíminn. „Og við erum afskaplega þakklát fyrir öll þau góðu ráð sem við höfum fengið,“ bætir hann við. 

Í byrjun árs voru skemmdarverk unnin á kirkjunni þar sem …
Í byrjun árs voru skemmdarverk unnin á kirkjunni þar sem fram­hlið og suður­hlið kirkj­unn­ar voru út­krotaðar. Síðan þá hefur stórséð á kirkjunni en þar fara fram giftingar, útfarir og skírnir svo eitthvað sé nefnt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hafa beðið mats sérfræðinga

Að hans sögn er fagfólk þó nauðsynlegt á þessu stigi til að meta skemmdirnar og hugsanlegar leiðir til úrbóta. „Því að það er hugsanlegt að sum efnin geti skemmt meira en þau laga,“ segir Svavar.

Kirkjan hefur því beðið eftir skýrslu sérfræðinga, sem leggur mat á skemmdirnar. Hún er nýlega tilbúin og er nú hjá lögreglu. Að sögn Svavars verður hún notuð sem verkfæri til að meta hvernig sé best að laga skemmdirnar og hve kostnaðarsamt það verði. 

Aðspurður um ábyrgð skemmdarvargsins svarar Svavar að þrátt fyrir að …
Aðspurður um ábyrgð skemmdarvargsins svarar Svavar að þrátt fyrir að vitað sé hver viðkomandi er breyti það litlu. „Við sitjum sennilega uppi með þessar skemmdir,“ segir hann. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sitja sennilega uppi með skemmdirnar

Í skýrslunni mun meðal annars koma fram hvort það sé mögulegt að ná krotinu af. Annars þarf kirkjan að fara í stórframkvæmdir.

„Ef að það reynist ómögulegt að ná þessu af þá verðum við að skipta um múrhúð á kirkjunni eða að minnsta kosti á hlut hennar,“ segir Svavar. „Við gerum okkur grein fyrir að þetta gæti kostað verulegar fjárhæðir að laga þetta,“ segir hann.

Hann segir þá að söfnuðurinn geti mögulega ekki borgað þær viðgerðir sem nauðsynlegar séu og þá þurfi hann hugsanlega að leita annað fyrir stuðning. Kirkjan sé þegar búin að sækja um í Jöfnunarsjóð sókna, sem er sameiginlegur sjóður myndaður úr sóknargjöldum, en það sé mögulega ekki nóg.

Aðspurður um ábyrgð skemmdarvargsins svarar Svavar að þrátt fyrir að vitað sé hver viðkomandi er breyti það litlu. „Við sitjum sennilega uppi með þessar skemmdir,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert