Sprengja og skotvopn fundust

mbl.is/Þórður Arnar

Skotvopn og heimatilbúin sprengja fundust þegar maður á sextugsaldri var handtekinn í Cuxhavengötu í Hafnarfirði í gær eftir að hann hótaði þar að skjóta fólk.

Sérsveit lögreglu var kölluð á staðinn, auk slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og lögreglunnar.

Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri, segist í samtali við mbl.is. ekki vita hvort sprengjan hafi verið virk. Það muni koma í ljós við nánari rannsókn í dag. Hann á von á því að sprengjunni verði eytt í framhaldinu.

Hann segir að sprengjan hafi verið unnin úr flugeldum eða tívolíbombu og að hún hefði getað valdið miklum skaða hefði hún sprungið.

Maðurinn viðurkenndi að eiga skotvopnið og að hafa útbúið sprengjuna.

Á meðan lögreglan var að störfum í húsinu var fólki vísað út úr húsinu, sem er á fimm hæðum.

Maðurinn var yfirheyrður í gærkvöldi og var honum sleppt í framhaldinu.

Rannsókn málsins er að mestu leyti lokið að sögn Sævars og verður því framhaldinu skilað til ákærusviðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert