„Aldrei verið í betra formi“

Sverrir Guðnason í hlutverki Björns Borg.
Sverrir Guðnason í hlutverki Björns Borg. Julie Vrabelova

Íslenski leikarinn Sverrir Guðnason leikur tennisstjörnuna Björn Borg í­ nýju kvikmyndinni Borg/McEnroe sem segir frá einví­gi þeirra kappa árið 1980, en bandaríski leikarinn Shia Labeouf leikur hinn skapstóra McEnroe. Myndin verður opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í­ Toronto í­ byrjun september, en það er í­ fyrsta skipti sem sænskri kvikmynd hlotnast sá heiður.

Sverrir kunni ekkert í tennisíþróttinni áður en hann tók að sér hlutverkið en finnst núna mjög gaman að spila tennis. „Auk þess að vera með tennisþjálfara í­ tvo tíma á­ dag á hverjum degi í­ hálft ár var ég lí­ka í­ líkamsrækt, svo ég æfði svona 15-16 tí­ma í viku. Ég hef aldrei verið í­ betra formi en svo missir maður þetta fljótt,“ segir Sverrir og virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því­. Hann segir þjálfunina hafa verið það erfiðasta við þetta hlutverk.

„Það var án efa að fara inn þessa rosalegu þjálfun og komast á það stig að maður gæti gengið inn á Wimbledon-leikvöllinn fyrir framan áhorfendur, tekið upp þessi atriði og verið sannfærandi. Það var mjög erfitt að ná því markmiði, en við náðum því­ báðir ég og Shia.“

– Er þetta ekki dramatísk mynd?

„Jú. Þegar myndin gerist er Björn búinn að vinna Wimbledon fjórum sinnum í röð og er núna að fara að spila í fimmta sinn. Það halda allir og ætlast í raun til þess að hann vinni, en hann finnur að hann er ekki jafn góður og hann var og það er mjög erfitt fyrir hann.“

Shia Labeouf og Sverrir Guðnason í hlutverkum sínum sem McEnroe …
Shia Labeouf og Sverrir Guðnason í hlutverkum sínum sem McEnroe og Björn Borg. Julie Vrabelova

– Ertu með hárkollu í myndinni?

„Nei, ég safnaði hári, það vex furðufljótt. Það eru stundum einhverjar lengingar í því en þetta er hárið mitt litað ljóst.“

– Hvernig var að leika á móti Shia Labeouf?
„Það var mjög fínt. Hann fer almennilega inn í hlutverkið og gerir það allaf. Það var mjög gaman að fylgjast með honum. Hann er fínn náungi og mjög góður leikari. Ég trúi því að hann eigi eftir að ná enn lengra í leiklistinni.“


Eins og flestir vita er McEnroe þekktur fyrir mjög mikið skap á meðan Borg er mun stilltari. 
– Myndirðu segja að þið Shia væruð jafn ólíkir og Borg og McEnroe?
„Já, jafnvel, við erum alla vega frekar ólíkir. En okkur kemur mjög vel saman, eins og Borg og McEnroe. Þeir urðu bestu vinir eftir þennan leik og eru vinir enn þann dag í dag.“

- Finnst þér þú eiga eitthvað sameiginlegt með Birni Borg? Gastu séð þig í honum?
„Já, svona, kannski helst þetta að vinna undir pressu og þetta sem fylgir því þegar fólk þekkir mann úr bíómyndum, fólk þekkti hann af vellinum. Þannig gat ég vel sett mig inn í hans líðan þótt þetta væri þúsund sinnum meira álag fyrir hann og hann var auðvitað miklu frægari. Það voru hann og páfinn og Michael Jackson sem voru frægustu menn í heimi.“ 
– Er þetta stærsta hlutverk sem þú hefur tekið að þér?
„Ég veit það ekki. Alltaf þegar ég fæ eitthvert hlutverk finnst mér það það erfiðasta sem ég hef fengið. Það fer eftir hvernig maður lítur á það. Ég held að þetta sé stærsta hlutverkið að því leyti að það muni ná lengst út í heim,“ segir Sverrir, en myndin verður sýnd um allan heim.

Sverrir Guðnason.
Sverrir Guðnason.



„Hún verður frumsýnd í Toronto og verður opnunarmynd hátíðarinnar og þar með fyrsta
sænska myndin sem fær að opna hana. Auk þess er búið að selja hana til 150 landa.“
– Hvað heldurðu að komi út úr því fyrir þig?
„Það veit enginn,“ segir Sverrir og hlær. „Það getur auðvitað opnað einhverjar dyr fyrir mér.“

Ítarlegra viðtal við Sverrir birtist í Sunnudagsblaðinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert