Auglýsir eftir starfsfólki á Facebook

Margrét er með allar klær úti þegar kemur að því …
Margrét er með allar klær úti þegar kemur að því að fá starfsfólk í vinnu. mbl.is/Árni Sæberg

Leikskólastjóri á leikskólanum Baug í Kórahverfinu í Kópavoginum hefur brugðið á það ráð að auglýsa eftir starfsfólki í Facebook-hópum vegna manneklu, en illa hefur gengið að fá starfsfólk í vinnu þar, líkt og víða annars staðar. Ráða þarf í fjögur stöðugildi á leikskólanum svo hægt sé að taka inn þau börn sem nú bíða eftir að komast í aðlögun.  

„Ég bjó til auglýsingu og setti á Facebook-síðuna mína og síðu Kórahverfisins, svo hefur færslunni verið deilt meðal annars á Beauty tips og víðar,“ segir Margrét Magnúsdóttir, leikskólastjóri á Baug. Hún hefur einnig hringt í mæður í hverfinu sem hún veit að eru atvinnulausar, og boðið þeim starf. „Þær sem ég hef talað við eru reyndar að leita sér að starfi í sínum geira, en maður prófar ýmislegt,“ segir Margrét vongóð, en óhætt er að segja að hún sé með allar klær úti.

Hún hefur að sjálfsögðu líka nýtt sér hefðbundnari leiðir, og auglýst eftir starfsfólki í blöðum og hjá Vinnumálastofnun og von er á nokkrum í starfsviðtöl á mánudaginn.

„Þetta er aðeins að glæðast hjá okkur, en ég þurfti að seinka aðlögun hjá allavega fimm börnum sem áttu að byrja í næstu viku. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef þurft að seinka aðlögun í þau tíu ár sem ég hef verið hér.“

Margrét segist þó enn ekki hafa fengið mikil viðbrögð við auglýsingunni á Facebook enda var hún sett inn í gærkvöldi. Hún vonast þó til að auglýsingarnar skili einhverju starfsfólki á leikskólann.

Margrét er ekki í neinum vafa um af hverju það gengur jafn illa að fá fólk í vinnu núna og raun ber vitni. „Þegar það er góðæri þá lendum við illa í því. Það hefur ekkert með leikskólana sjálfa að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert