„Ég ætla að vera rödd fólksins“

Kjartan Theodórsson býr í tjaldi ásamt konunni sinni. Hann nýtir …
Kjartan Theodórsson býr í tjaldi ásamt konunni sinni. Hann nýtir reynslu sína til þess að vekja athygli á stöðu heimilislausra á Íslandi í gengum Snapchat. Ljósmynd/Snapchat

Kjartan Theodórsson er ekki fyrsti Íslendingurinn til þess að búa í tjaldi eftir að hafa misst húsnæði en hann er örugglega sá fyrsti til að skrásetja líf sitt á götunni á Snapchat og vekur með því athygli á því að ábótavant sé í húsnæðismálum. „Ég er nýr Che Guevara á Kúbu nema ég er á Íslandi og heiti Kjartan Theodórsson.“

Kjartan Tjaldbúi, eins og hann kallar sig, hefur búið í tjaldi á tjaldsvæði Hafnafjarðar síðan í júlí. Í maí veiktist hann alvarlega og varð í kjölfarið óvinnufær. Þurfti hann þá að yfirgefa íbúðina þar sem hann bjó með eiginkonu sinni og leigði af vinnuveitenda sínum. 

„Hann [vinnuveitandinn] bað mig bara vinsamlega hvort ég gæti fundið mér eitthvað annað svo að hann gæti nýtt íbúðina,“ segir Kjartan, en hann hafi talið að það yrði ekkert vandamál að finna aðra íbúð. Svo hafi hins vegar ekki reynst vera.

Ljósmynd/Snapchat

Sáu ekki fram á að geta leigt á almennum markaði

Þau hjónin sáu ekki fram á að geta farið á almennan leigumarkað og borgað himinháa leigu, hún á lágum launum sem starfsmaður í verslun og hann í veikindaleyfi. Fyrir vikið gáfu þau húsgögnin sín, settu aðra persónulega muni í geymslu og fluttu í tjald á tjaldsvæði Hafnafjarðar.

Þar kynntist hann fólki sem er í sömu stöðu og hann. „Svo var ég búinn að sitja hérna dag eftir dag og horfa út í loftið, annaðhvort í lopapeysu út af kulda eða hálfnakinn útaf hita,“ segir hann. Þá hafi hann tekið ákvörðun: „Nú ætla ég bara að láta verða af þessu.“

Hann byrjaði á því að snappa til gamans undir nafninu iceman137413 og „leyfa fólki að sjá hvernig er að búa á götunni á Íslandi,“ segir Kjartan í gamansömum tón. „Samt var ég alltaf með í huganum að mig langaði að gera eitthvað." Svo hann setti sig í samband við frægan snappara sem kom sögu hans á framfæri og í kjölfarið hrönnuðust inn fylgjendur. 

Ljósmynd/Snapchat

Fjöldi fólks er í svipaðri stöðu 

"Ég er búinn að tala við mikið af fólki og fræðast mikið,“ segir Kjartan en honum hafa borist fjöldi skilaboða um fólk sem er í svipaðri stöðu og jafnvel fólk sem biður hann um ráð.

„Maður er í sjokki yfir því hvað það er búið að taka vel við þessu,“ segir Kjartan. Hann neitar að taka við ölmusu og vill alls ekki láta vorkenna sér. „Ég hef það alveg fínt,“ segir hann en honum og konunni hans hafa verið boðnir fjárstyrkir, gjafir og ýmislegt annað. 

Kjartan segir að stjórnvöld, bæjarfélög eða einhverjir þurfi að vinna að úrræðum fyrir fólk sem býr í tjöldum og á götunni á Íslandi. Með snappinu vilji hann vekja athygli á málstað heimilislausra hér á landi. „Ég ætla að vera rödd fólksins,“ segir hann og hyggst ekki hætta fyrr en allt heimilislaust fólk verður farið af tjaldsvæðum. 

Ljósmynd/Snapchat
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert