Ekki vitað um íslensk fórnarlömb

Ekki er vitað til þess að Íslendingar séu meðal fórnarlamba …
Ekki er vitað til þess að Íslendingar séu meðal fórnarlamba árásarinnar. AFP

Eng­ar upp­lýs­ing­ar hafa borist ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu um að ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar séu á meðal þeirra sem létu lífið eða særðust í hryðju­verk­inu í Barcelona í gærdag, þegar sendiferðabíl var ekið á hóp fólks á Römblunni. Þetta staðfestir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is. Staðfest hefur verið að 13 hafi látist í árásinni og yfir 100 slasast. Fórnarlömbin eru af að minnsta kosti 24 þjóðernum.

Það liggur hins vegar fyrir að fjölmargir Íslend­ing­ar voru á svæðinu og í sum­um til­fell­um rétt hjá þeim stað þar sem hryðju­verkið var framið. Þeim varð hins veg­ar ekki meint af vegna hryðju­verks­ins svo vitað sé.

Að sögn Urðar mun utanríkisráðuneytið áfram fylgjast með grannt með gangi máli á Spáni en spænska lögreglan hefur greint frá því að komið hafi verið í veg fyrir aðra árás í bæn­um Cambrils, um 100 km suður af Barcelona í gær­kvöldi. Þar voru fimm meintir hryðjuverkamenn skotnir til bana, en þeir voru í sendiferðabíl sem ók á gangandi vegfarendur í bænum, með þeim af­leiðing­um að einn lést og sjö særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert