„Ég hleyp fyrir frið“

Majid Zarei segir Ísland vera heimili sitt.
Majid Zarei segir Ísland vera heimili sitt. ljósmynd/Amnesty International

„Það skiptir ekki máli hvar þú fæðist. Þó ég hafi fæðst annars staðar í heiminum þá bý ég hér núna og Ísland er heimili mitt,“ segir hinn íranski Majid Zarei sem hefur búið hér á landi í rúmt ár. Majid mun á morgun hlaupa þrjá kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Amnesty International.

Majid er 26 ára gamall flóttamaður sem kom hingað til lands í mars í fyrra í leit að betra lífi. Hér segist honum líða vel, og upplifa öryggi. „Það eru ástæður þess að ég kalla þetta land heimili,“ segir hann. Hyggst Majid hlaupa fyrir frið á morgun að eigin sögn.

Margir gætu kannast við Majid úr myndbandinu Velkomin – Horfumst í augu, sem sýnt var í sjónvarpi síðasta vetur, en Íslandsdeild Amnesty International lét framleiða myndbandið í tengslum við herferð samtakanna í þágu flóttafólks.

Í samtali við mbl.is segist Majid hafa viljað leggja sitt af mörkum til að hjálpa Íslendingum og útlendingum að ná betur saman. „Ég tel að það sé mjög mikilvægt að skapa samband á milli Íslands og fólks frá öðrum löndum, úr öðrum menningarheimum, annarrar trúar og með annan bakgrunn. Mér finnst það vera skylda mín að gera það sem ég get til að hjálpa til við það,“ segir hann.

Hleypur fyrir málefnið þrátt fyrir að vera ekki mikill hlaupaáhugamaður

Majid segist hafa eignast marga góða vini hér á landi, sem hann líti nú á sem fjölskyldu sína. Þá er hann ánægður í starfi sínu hér á landi, en hann vinnur hjá verktakafyrirtækinu Eykt sem byggingatæknifræðingur.

Spurður um það hvernig hann hafi undirbúið sig undir hlaupið á morgun segir Majid að lítil undirbúningsvinna hafi farið fram. Hann sé ekki mikill hlaupaáhugamaður, og hafi ekki geta hlaupið nýlega vegna veikinda. „Ég vildi samt gera þetta til að sýna samstöðu. Ég hleyp fyrir frið,“ segir hann.

Hægt er að heita á Majid og aðra Amnesty-hlaupara hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert