Hvorki tími né peningar til formannskjörs

Stefán Hrafn Jónsson.
Stefán Hrafn Jónsson.

„Við vorum í raun og veru að tala við félagsmenn, án þess að gera það í gegnum fjölmiðla sem var því miður svolítið einkenni hjá okkur síðustu mánuði,“ segir Stefán Hrafn Jóns­son, vara­formaður Neyt­enda­sam­tak­anna. Samtökin funduðu í gær með félagsmönnum þar sem farið var yfir stöðu mála.

Eins og fjallað hef­ur verið um hafa harðar deil­ur verið uppi inn­an sam­tak­anna síðustu mánuði, en stjórn sam­tak­anna lýsti yfir van­trausti á þáver­andi formann, Ólaf Arn­ar­son, í maí síðastliðnum. Sagði stjórn­in Ólaf hafa komið fé­lag­inu í erfiða fjár­hags­stöðu vegna út­gjalda sem hann hafi stofnað til án aðkomu stjórn­ar­inn­ar.

Í kjöl­farið var öllu starfs­fólki sam­tak­anna sagt upp í júní til að bregðast við hinn­i bágu fjár­hags­stöðu. Loks sagði Ólaf­ur af sér í júlí, en hann hafði gegnt starf­inu frá því í októ­ber á síðasta ári. 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær nýr formaður verður kosinn en lög samtakanna segja til um að formaður sé kosinn á reglulegu þingi. „Næsta þing er haustið 2018. Það fer töluverð orka núna í að vinna í fjármálunum þannig að ég sé ekki að við kjósum í haust. Ég held að það sé hvorki tími né peningar til þess,“ segir Stefán.

Hann segir að fjármálastaða samtakanna hafi verið ansi dökk á vormánuðum. „Við höfum unnið að því að rétta okkur af og erum bjartsýn á að ná að klára árið með eiginfjárstöðu í núlli, sem er betra en að vera í mínus þó það hefði verið æskilegra að hafa varasjóð áfram,“ segir Stefán. Hann bætir við að á tímabili hafi stefnt í að samtökin yrðu 15 milljónum undir núlli í eiginfjárstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert