Lögregla rannsakar sjálfsvígið

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú andlát ungs manns sem tók sitt eigið líf á geðdeild Landspítala aðfaranótt föstudagsins síðasta. Í samtali við mbl.is segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn að ekki hafi borist kæra vegna atviksins, en lögregla rannsaki alltaf mál af þessu tagi, þegar fólk fellur frá með voveiflegum hætti.

Fara nú meðal annars fram skýrslutökur, þar sem reynt er að varpa ljósi á atburðarásina áður en maðurinn svipti sig lífi. Hafði hann verði fluttur á geðdeildina um hálfum sólarhring áður í sjálfsvígshættu.

Í yfirlýsingu frá Landspítala fyrr í vikunni kom fram að málið væri litið alvarlegum augum og yrði rannsakað ítarlega. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is á þriðjudag að hann tæki undir með stjórnendum spítalans um að atvik sem þetta ættu ekki að geta gerst.

Embætti landlæknis bíður enn eftir nánari upplýsingum frá Landspítala um málið, en greint var frá því á mbl.is að tilkynning sem spítalinn sendi embættinu hefði ekki verið fullnægjandi. Kom þar aðeins fram að at­vikið hafi orðið, en það voru ófull­nægj­andi upp­lýs­ing­ar fyr­ir embættið til að geta hafið rann­sókn.

Lýst var eft­ir mann­in­um aðfaranótt fimmtu­dags og fór fram um­fangs­mik­il leit í kring­um Kárs­nes. Hann fannst heill á húfi og var færður á geðdeild. Aðstand­end­um manns­ins var létt, þar sem þeir töldu að hann væri ör­ugg­ur. Hann hafði verið á geðdeild í um hálf­an sól­ar­hring þegar komið var að hon­um látn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert