Æfði tennis í tvo tíma á dag

Sverrir æfði stíft í undirbúningi fyrir tökurnar.
Sverrir æfði stíft í undirbúningi fyrir tökurnar. Ljósmynd/Julie Vrabelova

Sverrir Guðnason þurfti að æfa tennis í tvo tíma á dag í hálft ár til að geta verið sannfærandi í hlutverki Björns Borg, frægustu tennisstjörnu allra tíma.

„Það erfiðasta sem þú getur gert er að leika einhvern sem allir vita hvernig er. Og allir elska. Ég hugsaði mig því um tvisvar og þrisvar og horfði á upptökur af gömlum tennisleikjum og fleira myndefni. Ég fór að sjá hluti sem ég gæti gert í hlutverkinu og byrjaði að byggja þetta þannig upp.“

Þetta segir Sverrir í viðtali við Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem hann talar um vinnu sína við kvikmyndina Borg/McEnroe sem segir frá einvígi þeirra kappa árið 1980.

„Auk þess að vera með tennisþjálfara í tvo tíma í dag á hverjum degi í hálft ár var ég líka í líkamsrækt, svo ég æfði svona 15-16 tíma á viku. Ég hef aldrei verið í betra formi en svo missir maður þetta fljótt,“ segir Sverrir og virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því.

Sverrir hitti ekki Björn Borg á meðan hann var að undirbúa sig fyrir hlutverkið. „Sonur hans leikur hann ungan, þannig að ég hitti soninn og konuna hans, og ég vildi helst bara hitta hann eftir á,“ segir Sverrir.

„Þegar ég var að vinna í að byggja minn karakter reyndi ég mest að fá það sem ég þurfti úr gömlum heimildum,“ útskýrir Sverir og er ekki frá því að það hefði truflað vinnu sína að hitta Björn í eigin persónu.

Ítarlegt viðtal við Sverri er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert