Mála stíginn rauðan

Rauðu kaflarnir eru tíu talsins, báðum megin við fimm gatnamót …
Rauðu kaflarnir eru tíu talsins, báðum megin við fimm gatnamót inn á stíginn. Ljósmynd/Garðabær

Í Sjálandshverfi í Garðabæ hafa nokkrir kaflar á göngu- og hjólastíg hverfisins verið málaðir rauðir. Svokölluðum hvinröndum verður komið fyrir á rauðu köflunum á næstunni en það eru litlar rákir í gangstéttinni, ekki ósvipaðar þeim sem tíðkast stundum í vegköntum til að ökumenn séu meðvitaðir um að bíll þeirra sé kominn út í kant. Þeim er ætlað að minna hjólreiðamenn á að hjóla varlega, án þess þó að trufla þá um of.

Að sögn Guðbjargar Brár Gísladóttur, verkefnastjóra hjá Garðabæ, var ákveðið að fara milda leið til að draga úr hraða hjólreiðamanna sem margir hverjir fari hratt um svæðið. Skiltum verður einnig komið upp við hvinrendurnar þar sem hjólreiðamenn verða hvattir til að fara varlega.

Aðgreindir hjólastígar æskilegri

„Við vildum frekar gera þetta en að koma fyrir hliðum á stígnum sem myndu valda hjólreiðamönnum meiri truflun.“ Hún tekur fram að flestir hjólreiðamenn fari varlega, en of margir geri það ekki og stefni þannig gangandi vegfarendum í hættu. 

Stígurinn, sem er um kílómetra langur, er bæði ætlaður gangandi og hjólandi vegfarendum og fara mörg börn um hann á leið í skóla. Aðspurð segir Guðbjörg að auðvitað væri betra að leggja sérstakan hjólastíg samsíða þessum stíg, líkt og gert hefur verið víða í Reykjavík, en slíkt sé kostnaðarsamt og því hafi þessi leið verið farin, í það minnsta að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert