Vel heppnuðu Reykjavíkurmaraþoni lokið

Hlaupið var í blíðskaparveðri í dag.
Hlaupið var í blíðskaparveðri í dag. ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Vel heppnuðu Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, sem haldið var í 34. sinn í dag, er nú lokið. Rúmlega fjórtán þúsund manns tóku þátt í fimm vegalengdum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.

Veðrið lék við hlaupara í dag sem voru fjölmargir að bæta sinn besta árangur.

ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Sig­ur­veg­ari í maraþoni karla var Arn­ar Pét­urs­son sem hljóp á tímanum 2:28:17. Reykjavíkurmaraþonið er jafnframt Íslands­meist­ara­mót í maraþoni og því er Arn­ar líka Íslands­meist­ari í maraþoni. Tími Arn­ars er besti tími sem Íslend­ing­ur hef­ur náð í maraþon­inu og nýtt per­sónu­legt met hjá hon­um. 

Natasha Yaremczuk frá Kan­ada sigraði í maraþoni kvenna á tímanum 2:53:25. Tími Yaremczuk er 9. besti tími sem náðst hef­ur í maraþoni kvenna í sögu hlaups­ins.

Fyrsta ís­lenska kona í mark og Íslands­meist­ari í maraþoni 2017 var Ásta Krist­ín R. Par­ker en hún hljóp á tím­an­um 3:11:07.

ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Hlaupinu lauk á því að þátttakendur í Furðufatahlaupi Georgs hlupu úr Hljómskálagarðinum inn í markið í  Lækjargötu í ýmsum furðufötum. Foreldrar margra áttu í fullu fangi við að halda í við spræku hlauparana sína sem fyrir hlaupið höfðu leikið sér í hoppuköstulum og öðrum skemmtilegum tækjum í garðinum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Á síðunni Hlaupa­styrk­ur.is safna þátt­tak­end­ur Reykja­vík­ur­m­araþons áheit­um og þar má sjá að þegar hafa safn­ast yfir 111 millj­ón­ir króna. Enn er hægt að leggja góðu mál­efni lið í gegn­um síðuna. 

ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Heildarúrslit í tímatökuvegalengdum má finna á heimasíðu hlaupsins. 1.490 hlupu heilt maraþon, 2.963 voru skráðir til leiks í hálfu maraþoni og 6.747 hlupu tíu kíló­metra. 1.835 tóku svo þátt í skemmt­iskokki og tæp­lega 1.200 í furðufata­hlaupi Georgs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert