„Fólk sefur bara hérna á gólfunum“

mbl.is

„Við erum bara hérna enn á flugvellinum og ekkert að frétta,“ segir Erna Karen Stefánsdóttir í samtali við mbl.is en hún er stödd ásamt fjölskyldu sinni á Tenerife en um 18 klukkustundir eru síðan þau ásamt fjölda annarra farþega áttu að fljúga heim með flugfélaginu Primera Air.

Erna segir að engar upplýsingar hafi fengist frá flugfélaginu og mjög misvísandi skilaboð frá ferðaskrifstofum. „Fólk er hérna sem hefur bókað sig í gegnum fleiri en eina ferðaskrifstofu eða flugfélög. Sumir halda að vélin fari í dag og aðrir á morgun. Það veit enginn neitt fyrir víst. Maður veit ekki lengur hvað er rétt. Hjá Primera Air er síðan bara lokað um helgar.“

Erna segir að meðal annars hafi borist upplýsingar um að tvær flugvélar Primera Air væru á flugvellinum og báðar bilaðar en einnig að önnur þeirra væri farin. „Við erum alveg í myrkrinu. Við erum heppin að börnin okkar hafa getað sofið hérna á hörðum bekkjum en fólk sefur bara hérna á gólfunum. Við höfum síðan fengið einhverja matarmiða.“

Sjálf hafi hún ekkert getað sofið og svefnleysinu fylgi lystarleysi. Flestir hafi vakað í sólarhring eða meira. „Það er alltaf verið að segja við okkur að það komi nýjar upplýsingar eftir klukkutíma eða tvo.“ Spurð hversu margir farþegarnir séu sem eru í þessari stöðu segir Erna að það sé ekki gott að segja, fólk hafi dreifst nokkuð, en allavega einhverjir tugir.

Erna segir að það hafi verið mjög kalt í flugstöðinni í nótt og börnin hennar og hún sjálf hafi skolfið úr kulda. Mikil loftkæling hafi verið í byggingunni og svefnleysið líka haft sitt að segja. Ástandið sé hins vegar skárra núna þar sem kominn er dagur og meira líf hefur færst í húsið. Fólk væri ekki beinlínis með mjög hlýjan fatnað með sér í sumarleyfi á Tenerife.

Fram kemur á vef flugvallarins á Tenerife að flugferðinni, sem átti að fara í til Íslands klukkan fjögur í gær, hafi verið aflýst. Aðrar upplýsingar eru ekki um stöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert