Geðshræring greip um sig í flugstöðinni

Ökumaðurinn ók bíl á byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Ökumaðurinn ók bíl á byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Aðsent

Maðurinn sem handtekinn var í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um kvöldmatarleytið eftir að hafa ekið glæfralega á Reykjanesbrautinni, klesst bílinn, kýlt lögreglumann, þvingað kvenkyns ökumann úr bíl hennar með valdi og stungið af á honum með lögreglubíla á hælum sér og klessti að lokum bílinn á flugstöðinni, verður yfirheyrður á morgun.

Skúli Björnsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, staðfestir það í samtali við mbl.is en vill ekki tjá sig um hvort verið sé að láta manninn sofa úr sér, líkt og þegar menn eru handteknir undir áhrifum hvers kyns vímuefna. Lögreglan ætlar að senda frá sér tilkynningu um málið að sögn Skúla og verður spurningum fjölmiðla ekki svarað fram að því.

Ótrúlegt að ekki hafi orðið stórslys

Starfsmaður á Keflavíkurflugvelli, sem ekki vill láta nafn síns getið, segir að mikil geðshræring hafi gripið um sig á flugvellinum þegar maðurinn kom inn í komusal flugstöðvarinnar með miklum látum.

„Fólki var mjög brugðið, hugsanlega út af öllum þessum hryðjuverkum sem hafa átt sér stað í Evrópu að undanförnu,“ segir hún í samtali við mbl.is. „Ég skil ekki hvernig það hafi ekki orðið stórslys, það eru vegaframkvæmdir þar sem hann klessti fyrsta bílinn, eða við flugstöðina,“ segir hún og bætir við að flugfarþegar hefðu margir hlaupið í felur þegar atvikið varð í geðshræringu enda hafi enginn vitað hvað hafi verið á seyði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert