Af og frá að Thomas hafi verið beittur þrýstingi

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nikolaj Wilhelm Herluf Olsen var útilokaður sem sakborningur í máli þar sem Thomasi Møller Olsen er gefið að sök að hafa banað Birnu Brjánsdóttur 14. janúar síðastliðinn, meðal annars af því ekki fundust lífsýni úr Birnu á fötum hans, líkt og á fötum Thomasar. Þetta kom fram í vitnisburði Leifs Halldórssonar, lögreglumanns hjá lögreglunni á höfuðuðborgarsvæðinu, en Leifur hélt utan um rannsóknina á hvarfi Birnu eftir að ljóst var að um sakamál var að ræða.

Aðalmeðferð fer fram í sakamáli á hendur Thomasi í Héraðsdómi Reykjaness í dag og bar Leifur vitni nú fyrir skömmu.

Leifur segir Nikolaj einnig hafa verið útilokaðan sem sakborning og fengið stöðu vitnis, þar sem hann sjáist á myndbandi fara út úr bílnum og upp landgang togarans Polar Nanoq við Hafnarfjarðarhöfn laugardagsmorguninn 14. janúar. Thomas hafi hins vegar farið inn í bílinn og hann hafi sjálfur sagt við yfirheyrslur að hann hafi þar rætt við tvær stúlkur. Þá hafi allir sem hafi séð Nikolaj í bænum þetta kvöld verið sammála um að hann hafi verið ofurölvi.

Blóðslettur út um allan bíl

Það var Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, sem sækir málið, sem byrjaði á því að spyrja Leif út í framvindu rannsóknarinnar.

Leifur sagði að þegar hann hafi tekið við rannsókninni hafi strax verið farið í því að fá úrskurð um símagögn, fyrst hvert sími brotaþola hefði farið og síðar alla síma sem höfðu farið sambærilega leiða og hennar sími. Það leiddi lögreglu í Hafnarfjarðarhöfn og í ljós kom að sími Birnu, Thomasar og Nikolaj tengdust inn á sömu svæði. Svo hafi komið í ljós tenging við rauðan Kia Rio-smábíl sem lýst hafði verið eftir, en það var Thomas sem leigði bílinn.

„Það kom í ljós þegar við náðum í bílinn að eitthvað átti sér stað inni í bílnum. Hann var blóðugur. Það var blóð í aftursæti, blóð undir aftursæti. Blóðslettur á sólskyggni og mælaborði og hurð ökumannsmegin. Það var ljóst að átök áttu sér stað í bílnum,“ sagði Leifur. Á þeim tímapunkti var ekki vitað með vissu úr hverjum blóðið var en fengin var flýtimeðferð á greiningu sýna í Svíþjóð.

Farið með Thomas í vettvangsferð

Leifur sagði frá því að farið hefði verið í vettvangsferð með Thomas þann 20. janúar. Farið var niður að Hafnarfjarðarhöfn, en að ósk ákærða og verjandans var ekki farið í miðbæinn. Sagði Leifur tilganginn hafa verið að reyna að fá Thomas til að skýra atburðarásina og hvert bílnum hafi verið ekið, í samræmi við þau gögn sem lágu fyrir.

„Þar skýrði hann frá því að hafa ekið frá flotkvínni í Hafnarfjarðarhöfn með tvær stúlkur. Hann sagðist hafa sett stúlkurnar út við Ásatorg, við Reebok-líkamsræktarstöð. Þetta átti ekki við rök að styðjast því myndefnið fannst ekki,“ sagði Leifur.

Kolbrún spurði Leif hvort hann myndi hvort Thomas hafi sagt frá því við fyrstu skýrslutökur að tvær stúlkur hafi verið í bílnum. Leifur segir einhver hlé hafi verið gerð á skýrslutökum en þetta hafi komið fram fljótlega eftir að farið var að yfirheyra hann. „Hann skýrir frá þessu í þeirri skýrslutöku þegar farið er að ganga á hann með þau sönnunargögn sem liggja fyrir.“

Leifur sagði Thomas hafa haldið sig við þá sögu að tvær stúlkur hafi verið í bílnum. Hann sagði af og frá að Thomas hafi verið beittur þrýstingi við yfirheyrslur.

Virtist muna það sem hann vildi muna

Því næst tók verjandi við og spurði Leif hvort vitað væri um allt ferðalag Kia Rio-bifreiðarinnar aðfaranótt laugardagsins. Hann sagði bílinn sjást fara Sæbrautina, því næst kæmi hann inn í mynd við golfskálann í Garðabæ og svo við Hafnarfjarðarhöfn. Það sé því 40 mínútna tímabil þar sem bíllinn sést ekki í eftirlitsmyndavélum og Leifur staðfesti það. Hann sagði lögreglu ekki hafa vitneskju um annað en að Birna, Thomas og Nikolaj hafi öll verið í bílnum á þessum tíma.

Páll spurði frekar út í myndbandið af bílnum þar sem hann sést við Hafnarfjarðarhöfn. Þar sjáist til mannveru fara inn í bílinn, en ekki er hægt að staðfesta að það sé Thomas. Framburður Thomasar staðfesti hins vegar að umrædd mannvera væri hann.

Páll spurði Leif hvort lögregla hafi tekið framburð Thomasar trúanlegan og svaraði hann því játandi að hluta. Framburðurinn hefði verið sannfærandi fram að þeim tímapunkti sem honum fannst augljóslega óþægilegt að ræða það sem fram kom.

„Fram að þeim tíma þangað til honum fannst óþægilegt að ræða hlutina var hann skýr og greinilegur. Af hverju honum fannst óþægilegt að ræða hlutina skal ekki segja. Ég tók hann því trúanlegan. Ég tók hann hins vegar ekki trúanlegan þegar hann mundi skyndilega ekki hvað hafði gerst fimm mínútum síðar. Hann virtist muna það sem hann vildi muna.“

Páll spurði Leif jafnframt hvort honum hafi fundist Thomas ölvaður að sjá á upptökum úr eftirlitsmyndavélum en hann svaraði því neitandi. Leifur benti jafnframt á að ákærði hefði sjálfur sagt við yfirheyrslur að hann hafi ekki verið ölvaður. Aðspurður hvort honum hafi þótt sem Nikolaj hafi verið ölvaður á sömu upptökum sagði Leifur erfitt að segja. Hann hafi í raun virkað furðu brattur miðað við lýsingar annarra á ástandi hans. Hann hafi þó virst eitthvað valtur þegar hann gekk upp landgang Polar Nanoq á laugardagsmorguninn.

Telur bílnum hafa verið ekið að Óseyrarbrú

Að lokum spurði Páll Leif út í hans kenningar um það hvert Kia Rio-bifreiðinni hafi verið ekið á milli sjö og ellefu á laugardagsmorguninn 14. janúar, þegar hvergi sést til hennar í eftirlitsmyndavélum. Leifur sagðist telja að bílnum hafi ekið Krísuvíkurleiðina að Óseyrarbrúnni og til baka. Það passi miðað við kílómetrafjöldann sem bílnum var ekið.

Kolbrún átti svo síðustu spurninguna til vitnisins og að spyrði hvort margar eftirlitsmyndavélar væru fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Leifur sagði þær nánast engar. Kolbrún hefur með þessu væntanlega viljað sýna fram á að eðlilegt væri að bílinn sæist hvergi á eftirlitsmyndavélum á milli sjö og ellefu á laugardagsmorgni. Á þeim tíma er talið að Thomas hafi komið Birnu fyrir í sjó eða vatni í grennd við Óseyrarbrú, en hún fannst látin við við Sel­vogs­vita 22. janú­ar síðastliðinn, eft­ir að hafa verið saknað í átta sól­ar­hringa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert