Bregðast Grænlendingar öðruvísi við þrýstingi?

Verjandi Thomasar Möller Olsen spurði lögreglumann, sem bar vitni fyrir dómi í dag, hvort einhver skoðun hefði farið fram hjá lögreglunni á því hvort menningarlegur munur gæti verið á Íslendingum og Grænlendingum hvað ýmsa þætti varðaði, sem þyrfti að hafa að leiðarljósi við yfirheyrslur í sakamálum. Þá spurði hann hvort það lægi ekki fyrir að Grænlendingar brygðust öðruvísi við þrýstingi en Íslendingar.

Einar Guðberg Jónsson, lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var næstráðandi við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, sem Thomas er ákærður fyrir að hafa banað 14. janúar síðastliðinn, en aðalmeðferð í sakamálinu hófst í dag.

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði Einar hvort þessi skoðun á menningarlegum mun landanna hefði farið fram. Einar sagði enga slíka skoðun hafa farið fram, hins vegar hefði verið mikið lagt upp úr því að fá grænlenskan túlk, en það hefði gengið illa. Þá hefði grænlenskur lögreglumaður verið þeim innan handar við rannsóknina.

„Kom það fram að óráðlegt væri að beita Grænlendinga þrýstingi?“ spurði Páll, en Einar sagði það ekki venjuna við yfirheyrslur að beita þrýstingi.

Páll spurði hvort komið hefði fram að ákærði hefði kvartað yfir því að hann hefði verið beittur þrýstingi. Einar játaði því. Thomas hefði sagt lögreglumenn hafa komið inn í klefann sinn og hann hefði verið vakinn. Einar sagðist hafa rætt við sína menn vegna málsins.

Thomas og Nikolaj greindu báðir frá því fyrir dómi í morgun að lögreglan hefði öskrað á þá við yfirheyrslur. Þá sagði Thomas lögregluna hafa verið vonda við sig. Aðspurður sagði Einar hins vegar aldrei hafa verið öskrað við skýrslutöku þar sem hann var viðstaddur.

Páll spurði jafnframt hvort lögregla hefði sýnt Thomasi myndir af líki brotaþola, líkt og hann greindi frá, og Einar svaraði því játandi. Sagði slíkt oft nauðsynlegt því myndir væru hluti af sönnunargögnum. Spurður um viðbrögð Thomasar við myndunum sagði hann Thomas hafa sýnt lítil svipbrigði í öllum yfirheyrslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert