Gæsaveiðitímabilið hafið

Grágæs hefur sig til flugs í Elliðaárdal.
Grágæs hefur sig til flugs í Elliðaárdal. Ómar Óskarsson

Gæsaveiðitímabilið hófst í gær og nú má skjóta bæði grágæs og heiðargæs. Indriði R. Grétarsson, formaður Skotveiðifélags Íslands, segir veiðarnar fara rólega af stað.

„Mér sýnist að þetta sé bara kropp, eins og menn tala um. Mesti þunginn í veiðunum er svona um miðjan september og fram í miðjan október, því þá er búið að þreskja og svoleiðis,“ segir Indriði.

Hann segir stofnana í stærra lagi og þá sér í lagi heiðargæsastofninn. „Veður er mjög gott núna og stofnarnir virðast vera að koma sterkir upp. Heiðargæsin er í mikill uppsveiflu og hefur verið það í mörg ár, en á sama tíma er verið að loka af svæði þar sem má skjóta heiðargæsina vegna friðana.“

Þar vísar Indriði til hluta Guðlaugstungna og Vatnajökulsþjóðgarðs og fleiri sambærilegra veiðisvæða, þar sem veiðar eru nú bannaðar.

Segir að opna þurfi fyrir veiðar á ný

Hann segir þurfa að opna á veiðar á þessum svæðum, til að sporna við offjölgun í heiðargæsastofninum. „Grágæsin er farin að hopa undan heiðargæsinni af því að stofninn er orðinn svo stór og það er farið að skapa vandamál. Eina leiðin er að leyfa meiri veiðar og þá þarf að opna á þessi svæði sem voru áður fyrr aðalheiðargæsasvæðin.“

Helstu veiðisvæði heiðargæsarinnar eru uppi á hálendinu en grágæsin heldur sig að mestu á láglendi. Indriði segir vinsælustu svæðin til veiða vera í uppsveitum Árnessýslu, á Austurlandi og á heiðum norðanlands.

Skotveiðimenn munda skotvopn sín á gæsaveiðum.
Skotveiðimenn munda skotvopn sín á gæsaveiðum. Ingólfur Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert