Sagðist sjá eftir drykkjunni

Systir Nikolaj Wilhelm Herluf Olsen og fyrrverandi kærasta hans bera vitni fyrir dómi í gegnum síma með aðstoð túlks, en Nikolaj var með Thomasi Möller Olsen í bílnum þegar Birna Brjánsdóttir kom upp í Kia Rio-bifreið sem sá síðarnefndi hafði á leigu aðfaranótt 14. janúar síðastliðins. 

Aðalmeðferð fer nú fram í Héraðsdómi Reykjaness í sakamáli á hendur Thomasi, en hann er ákærður fyrir að hafa ráðið Birnu bana þessa sömu nótt eða snemma um morguninn.

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá aðalmeðferðinni.

Fjöldi vitna kemur fyrir dóminn í dag og eru þær tvær í þeim hópi. Báðar ræddu þær við Nikolaj í síma laugardaginn 14. janúar. Hann hafði í fyrstu stöðu sakbornings í málinu en fékk síðar stöðu vitnis. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahérðassaksóknari, sem sækir málið, byrjar á því að spyrja vitnin áður en verjandi Thomasar tekur við.

Nikolaj sagðist hafa sofnað í bílnum

Mari Lund, fyrrverandi kærasta Nikolaj, segist aðspurð muna eftir því að hafa rætt við hann í síma að morgni laugardagsins 14. janúar. Hún segist þó muna takmarkað eftir því, en hún hafi heyrt að hann hafi verið fullur.

Hann hafi þó verið rólegur eins og venjulega, að sögn hennar. Mari segist síðar hafa heyrt það frá vini Nikolaj að hann hafi grátið í símtali þar sem hann ræddi um þetta kvöld. Þá hafi hann sagst hafa séð eftir drykkjunni.

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, spyr Mari hvort Nikolaj hafi einhvern tíma sagt henni að stelpur eða stelpa hafi komið upp í bílinn til hans og Thomasar. Hún segir að þann 16. janúar, áður en hann var handtekinn, hafi hann sagt henni að hann hefði sofnað í bílnum og myndi ekki hvort það hefðu verið ein eða tvær stúlkur í bílnum.

Isabella Olsen, systir Nikolaj, segist hafa rætt við bróður sinn á laugardeginum. Hann tjáði henni að hann hefði drukkið mikið nóttina áður en í raun hafi þau aðeins rætt fjölskyldumálefni.

Isabella segir Mari hafa sagt sér að Nikolaj hefði verið mjög drukkinn og tekið stelpur upp í bílinn þessa föstudagsnótt.

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá aðalmeðferðinni.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert