Skuldir ríkisins munu snarhækka

Frá framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng.
Frá framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir ferlið við fjármögnum Vaðlaheiðarganga og segir að göngin séu eiginlega hvorki einkaframkvæmd né ríkisframkvæmd. Eins og greint var frá fyrir helgi má gera ráð fyrir því að dýrara verði í göngin en Hvalfjarðargöng.

„Eins og fjármálaráðherra setur þetta upp lítur út fyrir að það verði ekki hægt að selja framkvæmdina eins og gert var ráð fyrir. Ríkið þurfi þá að yfirtaka göngin og skuldfæra þetta endurfjármagnaða lán,“ segir Björn í samtali við mbl.is en hann fjallaði um málið á facebooksíðu sinni í gær.

Hann bendir á að skuldir ríkisins muni hækka um 15 milljarða og ekki hafi verið farið að lögum um ríkisábyrgðir. „Það er ekki verið að rukka ábyrgðargjald eða áhættugjald og það er ekki verið að halda utan um afskriftarreikning. Ef þetta á að vera einkaframkvæmd þá hækkar verðmiði ganganna um muninn á þeirri vaxtaprósentu sem ríkið fær og fyrirtækið fengi annars á almennum markaði,“ segir Björn.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmaðurinn segir að miðað við allar forsendur og álit sé framkvæmdin ekki einkaframkvæmd, heldur ríkisframkvæmd sem verið er að fela með að setja í lög um ríkisábyrgð. „Ef þetta er ríkisframkvæmd, af hverju kemur það ekki fram í skuldum ríkisins,“ spyr Björn og segir framkvæmdina því í raun hvorki einka- né ríkisframkvæmd.

„Það er verið að segja að þetta sé einkaframkvæmd þótt allir segi að þetta virki ekki á þeim forsendum. Til að þröngva þessu í það að þetta virki þá er lögum um ríkisábyrgðir troðið á þetta án þess að framfylgja lögunum í heild sinni. Sem gerir það að verkum að vextirnir af framkvæmdaláninu eru miklu lægri en þeir ættu að vera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert