Sögðu lögregluna hafa öskrað á sig

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjanes í dag.
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjanes í dag. Eggert Jóhannesson

„Lögreglan kom mjög illa fram við mig og ég var mjög stressaður,“ sagði Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í dag þar sem aðalmeðferð fer fram í sakamáli gegn honum vegna ákæru um að hann hafi ráðið Birnu Brjánsdóttur bana um miðjan janúar á þessu ári. Nikolaj Olsen, sem var ásamt Thomasi skipverji á togaranum Polar Nanoq og var með Thomasi um það leyti þegar Birna hvarf, sagði lögregluna hafa öskrað á sig.

Thomas sagði lögregluna hafa verið með leiðindi við sig og fyrir vikið hefði hann verið mjög stressaður, spurður hvers vegna framburður hans hefði tekið grundvallarbreytingum við aðalmeðferðina í dag miðað við framburð hans í fjölmörgum skýrslutökum hjá lögreglu í kjölfar þess að málið kom upp. Málflutningur hans gengur nú út á að Nikolaj sé sá sem hafi séð Birnu síðast af þeim tveimur en hann hafi þar hvergi komið nærri. 

Thomas sagðist hafa óvart sagt ósatt þar sem hann hafi verið undir miklu álagi í haldi lögreglunnar. Hins vegar hefði hann róast eftir að hann hefði losnað úr einangrun og farið að ræða við sálfræðing og lögreglan hætt að koma til hans. Hann sagði að lögreglumenn hefðu á tímabili komið á tveggja tíma fresti í klefann sem hann gisti og öskrað á sig hvað hefði orðið um Birnu. Lögreglan hefði þannig að hans sögn verið vond við hann.

„Lögreglan var vond við mig. Hún sýndi mér myndir af því sem ég hafði ekki gert og kallaði mig öllum illum nöfnum. Þeir reyndu að nota kærustuna mína. Þeir sögðu við mig að þeir ætluðu að sýna henni myndirnar til að sýna henni hvers konar skrímsli ég væri. Ég var undir mikilli pressu og langaði að hjálpa, en sagði óvart ósatt.“ Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari benti honum á að hann hefði talað á annan veg strax eftir handtökuna.

Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness.
Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness. Eggert Jóhannesson

Thomas talaði á svipuðum nótum þegar verjandi hans, Páll Rúnar M. Kristjánsson, lagði fyrir hann spurningar um breyttan framburð. Ítrekaði hann þá að hann hefði verið stressaður og lögreglan hefði verið vond við hann. Það hefði ekki verið fyrr en hugurinn og líkaminn hefði farið að róast að lokinni einangrun að hann hefði getað farið að tjá sig.

„Lögreglan kom inn til mín á tveggja tíma fresti og öskraði á mig. Hún var ekki góð við mig. Ég náði ekki sambandi við fjölskylduna mína eða kærustuna mína og vissi ekki hvað var að gerast. Þegar ég kom úr einangrun og gat haft samband við þau róaðist ég og ég gat farið að tjá mig um það sem hafði gerst. Með tímanum á róaðist líkaminn og hugurinn og þá mundi ég þetta allt mun betur,“ sagði Thomas í þeim efnum.

Páll spurði Nikolaj síðar í aðalmeðferðinni að sama skapi um reynslu hans af lögreglunni. Spurði hann hvort lögreglan hefði þrýst á hann á meðan hann hefði verið í haldi hennar, en Nikolaj var upphaflega í haldi með stöðu sakbornings ásamt Thomasi en var síðar leystur úr haldi og fengin staða vitnis. „Þegar ég var yfirheyrður fyrst var öskrað á mig og mér sagt að segja eitthvað, en ekki eftir það,“ sagði Nikolaj.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert