Thomas sagði frá dularfullum pakka

Thomas­ Møller Ol­sen, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, hafði mælt sér mót við höfnina í Hafnarfirði við aðila sem hann átti að afhenda pakka að morgni laugardagsins 14. janúar. Við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjaness sem nú fer fram neitaði hann að gefa nokkrar upplýsingar um pakkann.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sækir málið gegn Thomasi. Hún spurði hann um framburð hans, sem hann gaf fyrr í morgun, um að stúlka hefði komið inn í bíl hjá honum og Nikolaj Wilhelm Herluf Olsen, skipsfélaga hans, þegar þeir voru á ferð á Laugaveginum aðfaranótt 14. janúar síðastliðins. 

Hér er hægt að fylgj­ast með beinni texta­lýs­ingu úr dómsal

„Gott og vel. Við skulum fara aðeins betur yfir þetta. Þú segir að stúlka hafi komið upp í bílinn, þið hafið þurft að hægja á ykkur. Lýstu betur hvernig stúlkan kom upp í bílinn og lýstu stúlkunni,“ sagði Kolbrún.

„Við vorum með bremsuljósin á, við fórum mjög hægt. Man ekki nafnið á henni eða hvernig hún leit út,“ svaraði Thomas.

Kolbrún spurði hvort stúlkan hefði einfaldlega opnað bílinn og sest inn og Thomas játaði því. 

„Þekkirðu stúlkuna sem kom inn í bílinn sem Birnu Brjánsdóttur?“ spurði Kolbrún.

„Nei, ég hef aldrei séð hana,“ svaraði Thomas. Þegar Kolbrún spurði hann hvort hann gæti útilokað það, þá sagðist hann ekki geta það.

Kolbrún spurði Thomas því næst hvort hann gæti lýst stúlkunni sem kom inn í bílinn. Hann sagðist ekki geta það. Hún spurði hann út í fyrri framburð hans, þar sem hann sagði að tvær stúlkur, önnur þeirra Birna Brjánsdóttir, hefðu komið inn í bílinn og hvort um hefði verið að ræða misskilning í skýrslutöku. 

Nikolaj vildi „smá prívat“

Fyrr í morgun spurði Kolbrún Thomas hvort hann hefði stoppað bílinn við hús Golfklúbbs Garðabæjar, hann sagði að svo gæti verið. „Nikolaj vildi hafa „smá prívat“ með henni,“ var svarið. Hann hefði því farið út úr bílnum að beiðni Nikolajs sem ók á brott. Hann hefði ekki vitað hvert hann hefði farið og ekki hversu lengi Nikolaj og stúlkan hefðu verið fjarverandi. 

„Hvernig var ástandið þegar Nikolaj kom til baka og stelpan ekki lengur í bílnum, var eittvað óeðlilegt við bifreiðina?“ spurði Kolbrún. „Ég var ekkert að skoða það, mér var alveg sama. Nikolaj var að nudda hendur sínar eins og hann vildi róa sig. Hann var æstur,“ svaraði Thomas.

„Ég þarf að passa mig“

Kolbrún spurði Thomas um pakkann sem hann sagði fyrr í morgun að hann hefði átti að afhenda. „Ég átti að hitta manneskjuna á laugardaginn og afhenda pakkann,“ var svarið. Spurður um hvort staður og stund hefði verið ákveðið kvað hann nei við. Kom það til um nóttina hvenær þú ættir að afhenda pakkann?“ spurði Kolbrún. „Ég get ekki sagt meira um þetta. Ég þarf að passa mig,“ svaraði Thomas.

Saksóknari gekk áfram á Thomas sem neitaði að gefa nokkrar frekari upplýsingar um pakkann og vildi ekki greina frá stærð eða lögun hans. Hann greindi þó frá því að hann hefði haft samskipti við viðtakanda pakkans með samskiptaforritinu Vyper.

„Það sem ég er að reyna að fá fram Thomas er að þú keyrir þarna fram á endann á höfninni kl. 6 og bíður þar í 50 mínútur. Varstu búinn að ákveða það daginn áður eða var það ákveðið um nóttina?“ spurði Kolbrún. „Það var ákveðið um morguninn,“ var svarið.

„Varstu ekki stressaður yfir því að Nikolaj rauk á brott á bílnum og með símann þinn skömmu áður og skildi þig eftir?“ spurði Kolbrún og átti þar við þegar Thomas beið Nikolaj við golfvöllinn. „Nei,“ var svarið.

Kolbrún ítrekaði aftur spurningar sínar um pakkann og spurði hvað hann hefði innihaldið. 

„Ég get ekki sagt það.“ Lögmaður Thomasar tók þá til máls og sagði að hann vildi nýta sér þann rétt sinn að tjá sig ekki frekar um málið. „Ég vil ekki segja meira,“ sagði Thomas.

Hélt það væri æla í fötunum

Því næst spurði Kolbrún saksóknari Thomas út í föt hans, en hann skipti um föt þennan umrædda morgun. „Við sjáum á upptökum að þú kemur í bátinn, ferð út 20 mínútum síðar og ert þá kominn í önnur föt. Hvað gerðirðu við fötin sem þú varst í um nóttina?

„Ég hélt að það væri æla í fötunum,“ var svarið. „Af hverju var það,“ spurði saksóknari. „Ég sá brúnan lit, hélt það væri æla og þreif bílinn.“ Saksóknari spurði hvar ælan hefði verið í bílnum og svarið var: í aftursætinu. „En af hverju var hún þá á fötunum þínum?“ spurði saksóknari. „Æfingafötin mín voru í aftursætinu,“ var svarið.

„Ég spurði þig hvers vegna þú hefðir skipt um föt og þú sagðir að það hefði verið vond lykt og æla. Það voru fötin sem þú varst í, ekki æfingafötin þín,“ áréttaði saksóknari. Thomas svaraði þá því til að hann hefði haldið að gat hefði verið á buxum hans.

Kolbrún spurði því næst Thomas út í hvert hann hefði farið þegar hann ók út af hafnarsvæðinu kl. 7 um morguninn. „Ég er búinn að segja að ég get ekkert sagt um þetta mál,“ svaraði hann og vísaði til þagnar sinnar um pakkann. „Varstu beðinn um að slökkva á símanum?“ Já.

Kannast ekki við að hafa séð blóð

Kolbrún spyr Thomas út í þrifin á bílnum. Hún bendir á að hann hafi verið í langan tíma að þrífa bílinn. Hann hafi farið nokkrar ferðir fram og til baka að skipinu. „Var erfitt að reyna að þrífa æluna?“ Thomas svarar ekki frekar varðandi það hvernig hann þreif bílinn en hann segist hafa viljað skila bílnum hreinum.

„Nú liggur fyrir að þegar lögreglan rannsakaði bílinn þá var töluvert mikið blóð í honum,“ segir Kolbrún. Thomas segist ekki hafa séð neitt blóð.

„Hefurðu skýringar á því af hverju það fannst töluvert magn af blóði sem þú varst ekki var við?“ spyr Kolbrún. Hann segist ekki hafa séð rauðan lit, bara brúnan. Hann getur ekki gefið skýringar á því af hverju blóð úr Birnu Brjánsdóttur fannst í bílnum.

Kolbrún spyr út í blóð úr Birnu sem fannst á úlpu hans, sem var í aftursæti bílsins. Hann segist hafa haldið að þetta hafi verið úlpa félaga hans úr skipinu. Aðspurður hvort hann hafi þvegið úlpuna segist hann hafa tekið öll fötin úr bílnum og sett þau í þvottavélina.

Kolbrún spyr hvort Thomas hafi átt einhver samskipti við Birnu, en hann segir þau ekki hafa verið mikil. „Komstu við hana?“ spyr Kolbrún. „Auðvitað leit ég á hana en ég snerti hana ekki.“

Hann segist ekki geta skýrt af hverju skór Birnu fundust á bryggjunni við Hafnarfjarðarhöfn. Hann getur ekki útskýrt af hverju DNA úr honum fannst á skónum.

Kolbrún spyr út í læknsisskoðun sem Thomas sætti eftir handtökuna. „Það voru klórför á þér, geturðu skýrt það?“ Hann segir skýringuna vera að hann klóri sér oft í svefni. Hann sé með klórför á líkama sínum núna.

Bein textalýsing af aðalmeðferð málsins er á mbl.is

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert