Töfin hefur legið fyrir lengi

Starfsmenn Suðurverks og tékkneska verktakafyrirtækisins Metrostav vinna við malbikun vegarins …
Starfsmenn Suðurverks og tékkneska verktakafyrirtækisins Metrostav vinna við malbikun vegarins í gegnum Norðfjarðargöng í apríl síðastliðnum. Ljósmynd/Hnit

Guðmundur Ólafsson, verkstjóri hjá Suðurverki, segir að lengi hafi legið fyrir að einhver töf yrði á opnun Norðfjarðarganga. RÚV greindi frá því í morgun að tveggja mánaða töf yrði á opnun ganganna. Nú stendur til að opna þau í lok október.

Sveitarstjóri Fjarðabyggðar, Páll Björgvin Guðmundsson, segir í samtali við mbl.is að heimamenn bíði rólegir, enda skipti tveir mánuðir til eða frá engu máli í samhengi þess að fá þessi nýju jarðgöng í fjórðunginn. „Auðvitað hefði verið ánægjulegt að göngin hefðu verið opnuð á áætluðum tíma en við erum búin að bíða það lengi eftir göngum hér í sveitarfélaginu - hvað Neskaupstað varðar - að við höfum ekkert við þetta að athuga.“

Ekki frekari tafir

Göngin leysa af veginn um Oddsskarð, sem hæst stendur í um 600 metra hæð og getur verið mikill farartálmi. Guðmundur segir í samtali við mbl.is að nokkrir þættir skýri töfina sem orðið hefur á framkvæmdum. Þannig hafi komið á daginn að led-ljós sem til hafi staðið að nota hafi truflað tetra-símkerfi sem viðbragðsaðilar nota. Nokkurn tíma hafi tekið að ganga frá kaupum á öðrum ljósum. Þá hafi komið upp tafir tæknilegs eðlis sem og tafir vegna efnistöku. Hann bendir á að fyrirtækið eigi rétt á seinkun á afhendingu ganganna.

Spurður hvort fyrirtækið muni standa við að skila göngunum af sér í lok október segir hann að svo verði. Malbikun sé að stærstum hluta til lokið og allt sé að verða klárt. Hann greinir mikla eftirvæntingu á meðal heimamanna.

Styrkja Austfirði í heild

Páll Björgvin segir að opnun ganganna sé mikið tilhlökkunarefni fyrir Austfirðinga. Þau muni breyta miklu fyrir fjórðunginn í heild. Auðveldara verði að sækja lykilstofnanir í Neskaupstað, svo sem Verkmenntaskóla Austurlands og fjórðungssjúkrahúsið, auk þess sem flutningar á fiski verði mun auðveldari og ódýrari með tilkomu ganganna.

„Ný göng eru ný tækifæri á svo mörgum sviðum. Þau styrkja þetta svæði sem eitt atvinnusvæði en ekki síst menningu og félagsstarf.“ Hann segir að göngin muni efla lífsgæði á Austurlandi öllu. Tveggja mánaða töf á opnun ganganna sé því léttvæg tíðindi.

Páll Björgvin Guðmundsson er sveitarstjóri í Fjarðabyggð.
Páll Björgvin Guðmundsson er sveitarstjóri í Fjarðabyggð. Sveitarstjóri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert