Neytendur og bændur 100% flott hjónaband

Baldvin segir mikilvægt að selja upprunavottaðar vörur til útlanda til …
Baldvin segir mikilvægt að selja upprunavottaðar vörur til útlanda til að fá sem hæst verð. mbl.is/Árni Torfason

„Það er eitthvert tregðulögmál í gangi og menn vilja ekki fara út úr þessum gamla heimi. Whole Foods sendi kjötskurðarmenn til Íslands til að kenna íslenskum kjötiðnaðarmönnum að skera kjötið eins og þeir vilja selja það. Síðan líða 15 ár og enginn tekur þetta upp. Það þarf Costco til að bjóða nákvæmlega eins.“

Þetta segir Baldvin Jónsson, sem unnið hefur að markaðssetningu íslenskra landbúnaðarvara í Bandaríkjunum um árabil, í samtali við mbl.is. Hann gagnrýnir afturhaldssemi Íslendinga þegar kemur að framsetningu á íslensku lambakjöti sem söluvöru í verslunum og bendir á að framsetning Costco á kjötinu sé til fyrirmyndar og mun meira aðlaðandi. Whole Foods hefur selt íslensk lambakjöt í verslunum sínum í Bandaríkjunum í fjölda ára og hefur fengið það unnið og skorið frá Íslandi. Costco nýtir sér sama framleiðanda og Whole Foods, að sögn Baldvins.

Íslendingar verða alltaf bestu viðskiptavinir bænda

Hann vakti fyrst athygli á málinu á Facebook-síðu sinni sem innleggi umræðu um þann vanda sem nú steðjar að sauðfjárbændum vegna fyrirhugaðrar lækkunar á afurðarverði í haust. Hann segir umræðuna vera á fullkomnum villigötum. Útlit er fyrir að um 1.300 tonn af lambakjöti verði til 1. september, sem er um 700 tonnum meira en æskilegt er. Er þetta að gerast þrátt fyrir að sala á lambakjöti innanlands hafi gengið vel. Sala á erlendum mörkuðum hefur hins vegar dregist saman.

Í færslunni skrifaði Baldvin meðal annars: „Allir framleiðendur og allar verslanir hefðu fyrir mörgum árum átt að bjóða svona skurð á kjöti fyrir Íslendinga sem eru og verða ávallt bestu viðskiptavinir bænda.“ Vísar Baldvin þar til íslenska lambakjötsins sem nú er hægt að kaupa í Costco.

Baldvin segir þennan skurð á lambakjöti mun betri heldur en …
Baldvin segir þennan skurð á lambakjöti mun betri heldur en þann sem tíðkast almennt hér á landi. Mynd/Baldvin Jónsson

Baldvin segir mikilvægt að bregðast við breyttum neysluvenjum og neyslumynstri Íslendinga sem kalli eftir nýjungum á þessi sviði líkt og öðrum. „Það er mikið „trend“ hjá ungu fólki að kaupa akkúrat það sem ætlar að borða. Það er á móti matarsóun og vill minni pakkningar. Þetta sjáum við í þessum litlu sætu búðum þar sem eigendurnir eru sjálfir að afreiða, eins og í Kjöt og fisk, Borðinu og Búrinu. Þessar búðir eru að spretta eins og gorkúlur. Ungt fólk í dag er miklu meðvitaðra um lífsins gæði. Það er vitundarvakning um samfélagslega ábyrgð sem er stór þáttur í þessu öllu saman.“

Selja á ferskt upprunavottað kjöt til útlanda 

Baldvin telur einnig mikilvægt að gera breytingar í áherslum hvað varðar utanlandsmarkaðinn. Það eigi að einblína á að selja ferskt upprunavottað lambakjöt til útlanda sem árstíðarbundna vöru í takmörkuðu magni, í tvo til þrjá mánuði á ári. Frysta kjötið vill hann frekar fá á innanlandsmarkað.

„Ég er búin að vera að tala um þessi mál samfleytt í 15 ára og ég er ekkert að finna upp hjólið. Það er búið að sýna fram á að það skilar sér betur að hafa upprunavottaðar afurðir sem uppfylla skilyrði sælkeraverslana eins og Whole Foods. Þegar við erum með takmarkaðar auðlindir þá hljótum við að vilja fá sem mest verðmæti inn. Það er miklu meiri samkeppni á lágvörumarkaði og það er alltaf verið að tala um heimsmarkaðsverð, en við þurfum að fá hærra verð. Til að ná því er ekki nóg að segja að íslenskar landbúnaðarvörur séu ferskar og góðar. Það þarf að fá staðfestingu á því frá þriðja aðila,“ segir Baldvin og vísar þar til upprunavottunar.

Hann segir líka vanta samstöðu á milli landbúnaðar og sjávarútvegs, enda sé í báðum tilfellum um matvælagreinar að ræða. „Margfeldisáhrifin af því að vinna saman á erlendum mörkuðum liggja alveg í augum uppi. Í dag eru allt of margir höfðingjar og allt of fáir indjánar.“

Skattgreiðendur fjárfesti í landbúnaði 

Baldvin segir umræðuna um að bændur séu að fá ölmusu fá skattgreiðendum orðna mjög þreytta. Hann er þreyttur á að skattgreiðendur bölvi því að þurfa að styrkja bændur. „Þetta er svo leiðinleg umræða. Neytendur og bændur eru 100% flott hjónaband. Þeir eiga svo margt sameiginlegt. Í staðinn fyrir að tala um búvörusamning, sem fólk einfaldlega skilur ekki, þá er nær að reyna að breyta hugarfari og segja að íslenskir skattgreiðendur ætli að fjárfesta í íslenskum landbúnaði. Þetta á vera fjárfestingarsamningur en ekki búvörusamningur sem kemur lengst aftur úr fornöld. Bændur fá þá borgað fyrir að viðhalda kindastofni sem er hvergi annar staðar til í heiminum og neytendur njóta góðs af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert