Gantaðist með að Birna væri um borð

Nukaraaq lýsti samskiptum sínum við Thomas og Nikolaj.
Nukaraaq lýsti samskiptum sínum við Thomas og Nikolaj. mbl.is/Eggert

Nukaaraq Larsen, einn skipverja af Polar Nanoq, er fyrstur til að bera vitni á öðrum degi aðalmeðferðar í sakamáli á hendur Thomasi Møller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur 14. janúar síðastliðinn. Fjöldi vitna mun gefa skýrslu fyrir dómi í dag, þar á meðal réttarmeinafræðingar og bæklunarlæknir, ásamt lögreglumönnum sem komu að rannsókninni. Thomas situr ekki þinghaldið í dag.

Nukaraaq lýsir því meðal annars hvernig framkoma Thomasar og Nikolaj Olsen hafi verið eftir að skipið lagði af stað úr Hafnarfjarðarhöfn. Það er sækjandi, Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, sem byrjar á því að spyrja vitnið.

Sagði ekki ástæðu til að hafa áhyggjur

Nukaaraq segist hafa rætt við Thomas þegar skipið var lagt af stað og að hann hafi sagt að þeir Nikolaj hafi drukkið mikið á föstudagskvöld. Hann hafi hins vegar ekki séð neitt athugavert við framkomu hans. 

„Við töluðum ekki frekar um atvikið, enda vorum við byrjaðir að sigla af stað, en þegar við fórum að sigla til baka þá áttaði ég mig á því hvað hafði gerst,“ segir Nukaraaq og vísar þar til þess þegar skipinu var snúið aftur til Íslands að ósk lögreglu. Þá höfðu borist fréttir af því að tvítugrar stúlku, Birnu Brjánsdóttur, hefði verið saknað frá því aðfaranótt laugardagsins 14. janúar. Í kjölfar þess að skipinu var snúið við sigu íslenskir sérsveitarmenn um borð í skipið úr þyrlu. Um borð voru þrír skipverjar handteknir, þar á meðal Thomas og Nikolaj.

Aðalmeðferð í sakamáli á hendur Thomasi Møller Olsen er fram …
Aðalmeðferð í sakamáli á hendur Thomasi Møller Olsen er fram haldið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum vanir að gantast svo ég spurði hver þessi stelpa væri og hvort hún væri um borð hjá okkur. Þegar við snerum við þá fengum við að vita að það væru mögulega tveir menn um borð grunaðir og við fengum að vita að lögregla myndi koma um borð. En Nikolaj sagði að það væri engin ástæða til að hafa áhyggjur,“ segir Nukaraaq enn fremur um það sem gerðist um borð í Polar Nanoq.

Minnti að hann hefði séð tvær konur

Kolbrún spyr hann hvort Nikolaj hafi sagt honum frá því hvað gerðist og Nukaraaq segir frá samtali sem þeir áttu. „Hann sagðist hafa verið ansi fullur og þegar hann vaknaði og leit til baka í aftursætið minnti hann að hann hefði séð tvær konur. Hann sagðist hafa verið svo fullur og sofnað í bílnum en þegar þeir komu að höfninni þá voru konurnar aftur í. Við töluðum ekki meira um það.“

Nukaraaq segir Nikolaj hafa sagt að hann hafi komið einn um borð í skipið og að hann hafi farið einn upp í rúm. Aðspurður segist Nukaaraq ekki hafa rætt neitt frekar við Thomas. Hann hafi ekkert hitt hann eftir samtalið sem þeir áttu skömmu eftir að skipið lagði af stað úr höfninni.

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, tekur nú við og spyr hvort Nukaaraq hafi tekið eftir því að Nikolaj hafi verið með áverka á höndunum, en hann segist ekki hafa spáð í því. Páll er þar að spyrja út í marbletti á vinstri hönd Nikolaj sem getið er um í læknaskýrslu. Nikolaj sagði sjálfur fyrir dómi í gær að hann hefði slasast við vinnu, en lögregla spurði hann ekki út í áverkana við yfirheyrslur. Kom það fram þegar lögreglumaður bar vitni fyrir dómi í gær.

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert