Hjartasteinn framlag Íslands

Úr kvikmyndinni Hjartastein. Hún verður framlag Íslands til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs …
Úr kvikmyndinni Hjartastein. Hún verður framlag Íslands til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár.

Kvikmyndin Hjartasteinn í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar verður framlag Íslands til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Þetta var tilkynnt í dag á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í Noregi, það gerðu SKAM-stjörnurnar Tarjei Sandvik Moe og Iman Meskini.

Aðrar myndir sem hlutu tilnefninguna eru hin finnska Tyttö nimeltä Varpu í leikstjórn Selmu Vilhunen, danska myndin Forældre sem Christian Tafdrup leikstýrir, norska myndin Fluefangere í leikstjórn Izer Aliu  og svo sænska kvikmyndin Sameblod sem Amanda Kernell leikstýrir.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2002 á hálfrar aldar afmæli Norðurlandaráðs. Á hverju ári eru fimm kvikmyndir tilnefndar til verðlaunanna, ein frá hverju landanna.

Louder Than Bombs vann verðlaunin árið 2016 í leikstjórn Joachim Trier, en íslenskar kvikmyndir hafa í tvígang hreppt verðlaunin og eru það Fúsi í leikstjórn Dags Kára sem fékk verðlaunin 2015 og Hross í oss í leikstjórn Benedikts Erlingssonar, sem hlaut þau 2014.

Verðlaunamyndin verður tilkynnt við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 1. nóvember 2017 í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert