Leiðtogaprófkjör samþykkt á fundi Varðar

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra bar fram breytingatillögur á fundi Varðar …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra bar fram breytingatillögur á fundi Varðar í Valhöll. mbl.is/Ófeigur

Leiðtogaprófkjör verður haldið hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Breytingatillaga sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði fram á fjölmennum fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, var samþykkt nú síðdegis.

Búist hafði verið við hitafundi, en ólík sjónarmið höfðu verið uppi innan félagsins um hug­mynd­ir um að ekki fari fram próf­kjör í höfuðborg­inni í aðdrag­anda borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna á næsta ári, held­ur ein­ung­is leiðtoga­próf­kjör og upp­still­ing þegar kem­ur að öðrum full­trú­um á fram­boðslista flokks­ins.

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins fundaði í Valhöll í dag.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins fundaði í Valhöll í dag. mbl.is/Ófeigur

„Það var samþykkt breytingatillaga sem verður útfærð á ákveðinn hátt í samræmi við prófkjörsreglur,“ segir  Gísli Kr. Björnsson, formaður Varðar, í samtali við mbl.is.

Breytingatillagan sem samþykkt var með miklum meirihluta atkvæða kom frá Guðlaugi Þór. Gísli segir breytingarnar m.a. snúa að því að skipuð verði nefnd sem muni hafa umsjón með prófkjörinu. „Síðan verði stuðst við val á kjörnefnd með sama hætti og var gert fyrir alþingiskosningarnar 2016,“  segir hann. Þá mun dagsetning fyrir leiðtogaprófkjörið einnig vera skilin eftir opin, en búið var að fastsetja dagsetningu í fyrri tillögu.

Gísli segir fundinn, sem stóð yfir í rúma klukkustund, ekki hafa verið hitafund.  „Það voru búin að vera uppi ólík sjónarmið á þessa tillögu fyrir fundinn, en sem betur fer þá kom þessi góða tillaga og fólk sættist á hana.“

Samkvæmt heimildum mbl.is þá naut tillaga Guðlaugs Þórs m.a. stuðnings Brynjars Níelssonar alþingismanns, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, Árna Árnasonar stjórnarmanns í Verði, sem og Arndísar Kristjáns­dótt­ur, formanns Hvat­ar, fé­lags sjálf­stæðis­k­venna í Reykja­vík og stjórn­ar­manns í Verði, sem gagnrýnt hafði fyrri tillögu.

Fjöllmennt var á fundi Varðar þar sem samþykkt var að …
Fjöllmennt var á fundi Varðar þar sem samþykkt var að leiðtogaprófkjör yrði haldið fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. mbl.is/Ófeigur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert