„Mjög brýnt“ að koma höndum yfir skipverjana

Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri.
Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón H.B. Snorrason, sem gegndi stöðu aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu á þeim tíma sem leitin að Birnu Brjánsdóttur fór fram í janúar síðastliðnum, taldi brýnt að koma höndum yfir sjómenn um borð í togaranum Polar Nanoq, sem grunaðir voru um að tengjast hvarfi Birnu. Þess vegna var farið út í þær aðgerðir að handtaka þá um borð í skipinu.

Jón var kallaður til sem vitni af hálfu verjanda og spurður út í minnisblað sem hann gerði um handtöku þriggja skipverja á grænlenska togaranum Polar Nanoq. Annar dagur aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Møller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu, stendur nú yfir.

Jón sagði aðspurður að úrskurður um leit og handtöku á skipverjunum hefði legið fyrir þegar minnisblaðið var ritað. Hann vildi fá að gera frekari grein fyrir þeim aðstæðum sem voru til staðar.

„Þennan þriðjudag voru komnar sterkar grunsemdir að einn eða tveir skipverjar tengdust með einhverjum hætti hvarfi Birnu og það skipti miklu máli að vinna þetta hratt til að finna hana á lífi ef það væri hægt. Ég hafði því samband við aðstoðarlögreglustjóra á Grænlandi til að fá þá til samstarfs,“ sagði Jón um það sem gerðist áður en skipverjarnir voru handteknir.

Hann sagðist einnig hafa verið í sambandi við forstjóra Landhelgisgæslunnar sem kom fjórum lögreglumönnum um borð í danska herskipið Triton. Áttu þeir að fara til Grænlands og sækja þar grænlenskan lögreglumann. Um kvöldið bárust hins vegar upplýsingar um að ákveðið hefði verið að snúa togaranum við til hafnar á Íslandi á ný. Kollegi Jóns á Grænlandi taldi eðlilegt íslenskir lögreglumenn færu um borð í skipið þegar það væri komið yfir miðlínu á milli Íslands og Grænlands.

Þá komu hins vegar fram upplýsingar frá dönskum yfirvöldum um að ekki væri hægt nota danskt herskipt til að handtaka grænlenska sjómenn um borð í grænlenskum togara. Þess vegna var notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar til að koma lögreglumönnunum um borð í skipið.

„Við töldum mjög brýnt að koma höndum yfir þessa menn. Þeir voru grunaðir um mjög alvarlegan glæp. Við töldum líka brýnt að þeir væru ekki lengi við erfiðar aðstæður innan um 20 sjómenn þarna um borð,“ sagði Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert