Rúmlega helmingur frá Georgíu

Um 580 einstaklingar nutu þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um …
Um 580 einstaklingar nutu þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um síðastliðin mánaðamót, þar af voru um 240 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmur helmingur þeirra sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi í júlí er frá Georgíu. Alls sóttu 123 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi í mánuðinum.

Umsóknir á fyrstu sjö mánuðum ársins voru 626, tæplega tvisvar sinnum fleiri en á sama tímabili á síðasta ári (317). Fjölgunin samanborið við árið 2016 bendir enn til þess að umsóknir um alþjóðlega vernd verði fleiri á þessu ári en því síðasta, jafnvel á bilinu 1.700 til 2.000. Um miðjan ágúst höfðu 53 sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, samkvæmt tölum Útlendingastofnunar.

Af 18 þjóðernum en 76% þeirra koma frá öruggum ríkjum

Umsækjendur í júlí voru af 18 þjóðernum, flestir komu frá Georgíu (64) og Albaníu (30). 24% umsækjenda komu frá ríkjum Balkanskagans og 76% frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki.

Sjá nánar hér

79% umsækjenda voru karlkyns og 21% kvenkyns. 89% umsækjenda voru fullorðnir og 11% yngri en 18 ára. Tveir umsækjendur kváðust vera fylgdarlaus ungmenni, segir enn fremur í frétt á vef stofnunarinnar.

Niðurstaða fékkst í 105 mál í júlímánuði. 35 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar en þar af voru 4 mál afgreidd í forgangsmeðferð. 23 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 5 umsóknum var synjað vegna þess að umsækjendur höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki og 42 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða létu sig hverfa.

14 mál enduðu með synjun en 21 með veitingu verndar

14 þeirra 35 mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með ákvörðun um synjun og 21 máli með ákvörðun um veitingu verndar eða viðbótarverndar. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Afganistan (13) og Írak (5) en flestir þeirra sem var synjað komu frá Georgíu (4) og Nígeríu (4).

Um 580 einstaklingar nutu þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um síðastliðin mánaðamót, þar af voru um 240 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veittu um 340 einstaklingum þjónustu í búsetuúrræðum stofnunarinnar.

Stoðdeild Ríkislögreglustjóra flutti 31 einstakling úr landi í júlí. 33 einstaklingar yfirgáfu landið sjálfviljugir með stuðningi Útlendingastofnunar í mánuðinum og 8 með stuðningi Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar (IOM).

Georgía er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki. Á vef stofnunarinnar segir svo um Georgíu:

„Georgía er stjórnarskrárbundið lýðræðisríki og er meðal annars aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Mannréttindi eru almennt virt í Georgíu og kveður stjórnarskrá Georgíu á um jafnræði borgaranna ásamt því að erlend mannréttindasamtök hafa starfað í landinu án tálmana. Útlendingastofnun hefur kannað aðstæður í Georgíu í þaula í tengslum við hælisumsóknir fólks frá landinu og fyrir liggur að allar forsendur eru fyrir hendi til að skilgreina Georgíu sem öruggt ríki.“

Forseti Georgíu, Giorgi Margvelashvili.
Forseti Georgíu, Giorgi Margvelashvili. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert