Bændur í útlöndum og dreifing mjólkur stöðvuð

Nautgripur. Mynd úr safni.
Nautgripur. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Starfsmanni MAST sem fór í eftirlitsferð á mjólkurbúið Viðvík í Skagafirði á fimmtudaginn síðastliðinn var meinaður aðgangur að fjósinu. Daginn eftir stöðvaði Matvælastofnun dreifingu mjólkur frá bænum. Bændurnir voru í útlöndum á þeim tíma og börn þeirra sem eru 9, 15 og 24 ára sáu um búið á meðan. Bændurnir vildu vera viðstaddir heimsóknina og óskuðu því eftir að henni yrði frestað. Ekki var orðið við þeirri ósk og því var dreifing mjólkur frá bænum stöðvuð daginn eftir eftirlitsferðina.  

Á mánudaginn fékk eftirlitsmaður MAST að kanna aðstæður á mjólkurbúinu og reyndust hollustuhættir viðunandi. Seinna í dag er því búist við að dreifingarbanninu verði aflétt. Þegar dreifingarbannið var sett á var enginn rökstuddur grunur um að eitthvað væri  að mjólkinni heldur gat starfsmaður ekki gengið úr skugga um að hollustuhættir í matvælaframleiðslu væru viðunandi.

Fremur sjaldgæf vinnubrögð

„Þetta er fremur sjaldgæft,“ segir Hjalti Andrason, fræðslustjóri Matvælastofnunar, spurður út í aðgerðir MAST. Hann bendir hins vegar á að starfsmenn MAST verði að geta gert úttektir á matvælaframleiðslu án þess að eigendur eða rekstraraðilar viti af henni fyrir fram.   

Samkvæmt matvælalögum er matvælafyrirtækjum skylt að veita óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér stað, segir í tilkynningu frá MAST.

mbl.is/Styrmir Kári

„Valdníðsla“ af hálfu MAST

„Mér finnst lágmarkskrafa að bóndinn sé viðstaddur þegar starfsmaður MAST mætir í skoðunarferð,” segir Guðríður Björk Magnúsdóttir, bóndi í Viðvík. Hún var nýlega lent í Noregi þegar einn af þremur sonum hennar sem var heima og sá um búið hringir í hana og greinir frá því að starfsmaður MAST væri kominn til að skoða fjósið.

Að sögn Guðríðar hafi honum verið greint frá því að þeir væru ekki fulltrúar búsins og gætu þar með ekki leyft starfsmanni MAST að skoða fjósið. Þá hafi starfsmaður MAST, Jón Kolbeinn Jónsson héraðsdýralæknir, sagt að ef hann fengi ekki að skoða fjósið þyrfti að kalla til lögreglu til að framfylgja skoðuninni. Guðríður talaði við Jón í síma og benti honum á að hann þyrfti líka að fá húsleitarheimild þar sem búreksturinn væri á einkakennitölu. Ekkert varð úr lögregluheimsókninni. 

Daginn eftir, á föstudeginum 18. ágúst, birtist starfsmaður MAST með skjal sem hann biður elsta soninn á bænum um að skrifa undir. Hann neitaði því þar sem hann er ekki forráðamaður búsins og taldi sig ekki hafa rétt til þess, að sögn Guðríðar. Skjalið var afrit af skýrslu um stöðvun á markaðssetningu mjólkur.  

„Við óskuðum eftir því að heimsókninni yrði frestað því við héldum að við ættum skýlausan rétt til þess að vera viðstödd í okkar húsum eða að tilkvaddur fulltrúi búsins væri það,“ segir Guðríður. Ekki varð úr því og þurftu bændurnir Guðríður og eiginmaður hennar, Kári Ottósson, að senda MAST yfirlýsingu þess efnis að stofnunin fengi aðgang að fjósinu án þeirra eða fulltrúa þeirra án leyfis hvenær sem væri til þess að skoðun og opnun færi fram. Sú skoðun fór fram á mánudaginn eins og greint var fyrr frá. 

Furðar sig á nafnbirtingu búsins

„Mér finnst þetta valdníðsla og ekkert annað,“ segir Guðríður. Hún tekur samt fram að það sé margt gott sem MAST geri og sinni og eftirlitsskyldu þeirra bæri að taka alvarlega, hins vegar þykir henni þetta hafa verið full gróf framganga í þeirra garð. Hún furðar sig einnig á nafnbirtingu búsins í tilkynningu MAST. 

„Það er greinilega ekki sama hver á í hlut. Hvers vegna var bóndinn ekki nafngreindur sem drap kvígu með að draga hana á eft­ir bíl sínum í fyrrasumar? Það er mun alvarlegra en að krefjast þess að fá að vera viðstaddur þegar MAST kemur í eftirlitsferð á búið sitt,“ segir Guðríður. Hún vísar í mál sem kom upp á Norðurlandi í fyrrasumar og fékk bóndinn áminningu

„Við erum alvarlega að hugsa um að slútta fríinu út af þessu. Börnin eru niðurbrotin yfir hótunum um lögreglu,“ segir Guðríður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert