Sonurinn í járnkallinn 2024

Guðjón Karl Traustason var þriðji efstur Íslendinga í Járnkallinum í …
Guðjón Karl Traustason var þriðji efstur Íslendinga í Járnkallinum í Kaupmannahöfn sem fram fór á sunnudaginn. Alls tóku 35 Íslendingar þátt. Ljósmynd/aðsend

Guðjón Karl Traustason er einn 35 Íslendinga sem tóku þátt í járnkallinum í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. 21 þeirra Íslendinga sem skráðu sig kláraði keppni og telst það mikið afrek út af fyrir sig.

Guðjón Karl var þriðji efsti Íslendingurinn, á eftir þeim Jóni Hinriki Höskuldssyni og Benedikt Sigurðssyni. Hann hefur þrisvar áður farið í heilan járnkall, bæði í Svíþjóð og Barcelona, auk þess að hafa nokkrum sinnum keppt í hálfum járnkalli hér heima.

Guðjón Karl fór með fjölskyldu sinni út en faðir hans …
Guðjón Karl fór með fjölskyldu sinni út en faðir hans Trausti Valdimarsson tók einnig þátt á meðan að fjölskyldan hvatti þá áfram. Ljósmynd/aðsend

„Heildartíminn var reyndar örlítið slakari en minn besti tími,“ segir Guðjón Karl um keppnina en töluverður vindur hægði á ferð hans á hjólaleiðinni. Á móti segist hann hafa bætt tímann í sundinu, sem gekk mjög vel.

Hann segir keppnina í Kaupmannahöfn standa upp úr hvað varðar áhorfendafjölda og stemningu á brautinni en fjöldi Íslendinga var á staðnum að hvetja sitt fólk áfram. „Maður sá íslenska fánann alveg margoft,“ segir hann. Hann segir keppnina vera einstaklega vel upp setta fyrir fjölskyldur og vini til þess að fylgjast með og hvetja áfram en öll fjölskyldan fylgdi honum út. 

Guðjón Karl segir að hann stefni á að keppa á …
Guðjón Karl segir að hann stefni á að keppa á tveggja ára fresti en árið 2024 ætlar hann að taka soninn með. Ljósmynd/aðsend

Þrjár kynslóðir járnkalla

Trausti Valdimarsson, faðir Guðjóns Karls, tók einnig þátt í keppninni og kepptu þeir tveir feðgar. Var hann aðeins sjö sekúndum frá því að komast á heimsmeistaramótið í sínum aldursflokki. „Það var örlítið súrt fyrir hann að ná því ekki,“ segir Guðjón Karl.

Hann stefnir á að vera aftur með og fara á tveggja ára fresti. „Svo vonandi fer sonur minn sinn fyrsta árið 2024,“ segir hann en það má segja að járnkallinn sé sannkallað fjölskyldusport hjá þeim feðgum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert