Ein kæra vegna veiðiþjófnaðar í sumar

Veiðimaður, með leyfi, glímir við lax í Þverá.
Veiðimaður, með leyfi, glímir við lax í Þverá. Einar Falur Ingólfsson

Ein kæra vegna veiðiþjófnaðar liggur á borði lögreglunnar á Vesturlandi. Það er eina kæran sem lögreglu hefur borist í þremur af helstu laxveiðiumdæmum landsins. Alls hafa fimm mál komið á borð lögreglunnar á Vesturlandi á þessu ári, samanborið við eitt í fyrra og þrjú í hitteðfyrra.

Engin mál sem snúa að veiðiþjófnaði hafa komið á borð lögreglu í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi. Sömu sögu er að segja af umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Þar hefur allt verið með kyrrum kjörum.

Öll brotin á Vesturlandi

Fimm mál hafa komið á borð lögreglu á þessu ári í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi. Flest þeirra hafa ratað í fréttir. Þannig voru tveir Íslendingar kærðir fyrir ólöglegar veiðar í Þverá í Borgarfirði í júlí. Tvær veiðistangir voru þar gerðar upptækar sem og 64 sentímetra lax. Þetta er eina málið sem hefur verið kært en rannsókn ku vera á lokametrunum.

Hin málin fjögur snúa öll að erlendum ferðamönnum. Frakki var þann 14. ágúst staðinn að veiðum í laxastiganum við fossinn Glanna í Norðurá. Stöngin var gerð upptæk en engin kæra hefur enn verið lögð fram, að sögn Ólafs Guðmundssonar, hjá lögreglunni á Vesturlandi.

Í Tunguá, við Lundarreykjadalsveg voru fjórir útlendingar á reiðhjólum staðnir að veiðum í júlí. Þeir höfðu eina stöng meðferðis og hugðust veiða sér í soðið. Þeim hafði ekki orðið kápa úr því klæðinu.

Þá var erlendur ferðamaður í júlí staðinn að veiðum við Eystra-Miðfell, í Laxá í Leirársveit. Annar ferðamaður var í sama mánuði gómaður við veiðar í Langá, en hann sagðist hafa fengið leyfi hjá mönnum í nágrenninu. Veiðistöngin var haldlögð.

Geta mest fengið tveggja ára dóm

Brot á lögum um lax- og silungsveiði geta varðað sektum eða allt að tveggja ára fangelsi, ef sakir eru miklar. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er algengast að mál sem þessi séu til lykta leidd með sektargreiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert