„Akfeitur sigur“ að geta andað með nefinu

Það er „risastór og akfeitur sigur
Það er „risastór og akfeitur sigur" fyrir Katrínu Björk Guðjónsdóttur að geta aftur andað með nefinu. Ljósmynd/katrinbjorkgudjons.com

„Í ágúst ætla ég bara að nefna einn svo risa stóran og akfeitan sigur að ég ræð mér vart fyrir svo innilegri gleði, bara tilhugsunin um að ég geti þetta loksins aftur eftir tvö ár. Í tvö ár gat ég þetta ekki og ég hafði ekki nokkurn einasta möguleika á að æfa þetta.“

Svo skrifar hin 24 ára gamla Katrín Björk Guðjóns­dótt­ir, sem lamaðist frá hvirfli til ilja í kjöl­far tveggja heila­blæðinga og blóðtappa. Katrín er á batavegi og hefur náð miklum framförum en í rúmt ár hefur hún bloggað um bataferlið. Í nýjustu færslu sinni skrifar Katrín um einn stærsta sigurinn til þessa á bataferlinu - að geta andað með nefinu.

„Ég græt af gleði bara þegar ég reyni að skrifa það, því núna get ég loksins aftur…ANDAÐ MEÐ NEFINU!“ skrifar Katrín. Í tvö ár hefur hún aðeins getað andað með munninum og því segir hún það ákaflega gleðilegt að geta loksins andað með nefinu eftir að hafa sætt sig við að það gæti hún ef til vill aldrei aftur.

„En svo vaknaði ég einn morguninn núna í byrjun ágúst og ég fór strax að undra mig á því af hverju tungan væri ekki föst uppi í skraufþurrum gómnum og varirnar voru hvorki þurrar eða fastar við tennurnar, þá runnu bara gleðitár niður kinnar mínar því ég gat andað með nefinu. Nú get ég loksins haldið munninum lokuðum og andað,“ skrifar Katrín.

„Góðir hlutir gerast svo sannarlega hægt. Núna þarf ég ekki að þykjast finna einhverja lykt þegar það er borið upp að nefinu mínu, núna þá get ég bara fundið lyktina.“

Fyrr á ár­inu var Katrín út­nefnd Vest­f­irðing­ur árs­ins þar sem hún var heiðruð fyr­ir skrif sín á bloggsíðunni en þar birtir hún reglulega færslur bæði á íslensku og á ensku, prýddar eru litríkum myndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert