Yrðu dýrustu jarðgöng á Íslandi

Seyðisfjörður.
Seyðisfjörður. Sigurður Bogi

Gjaldtaka á stofnleiðum í kring um höfuðborgarsvæðið gætu skapað svigrúm til að ráðast í brýnar samgönguúrbætur víða um land. Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Jóns Gunnarssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á opnum fundi á Reyðarfirði á mánudag.

Í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands segir að húsfyllir hafi verið á fundinum, hátt í hundrað manns, en hann fór fram í safnaðarheimili kirkjunnar. Þar segir einnig að samgöngumál fjórðungsins hafi verið ofarlega í hugum fundargesta.

Jarðgöng undir Fjarðarheiði, milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs, voru á meðal þess sem um var rætt. Einnig báru jarðgöng sem tengdu saman Seyðisfjörð, Mjóafjörð, Norðfjörð og Fljótsdalshérað á góma. Jón mun hafa sagt að hvor göngin um sig myndu kosta á þriðja tug milljarða króna, ef af yrði. Um yrði að ræða stærstu og dýrustu einstöku framkvæmd sem nokkru sinni hefði verið ráðist í á Íslandi. Vanda þyrfti mjög til ákvörðunartöku.

Jón benti á fundinum á að fjármagn væri af skornum skammti en að hann hygðist gera sitt ýtrasta til að fá auknar fjárveitingar til málaflokksins. Brýn verkefni stæðu fyrir dyrum bæði á Austurlandi og víðar.

Jón sagðist ætla að stofna starfshóp til að „meta fýsileika þeirra valkosta sem fyrir liggja og bæta munu samgöngur við Seyðisfjörð.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert