Búast við úkraínskum fótboltabullum

Sérsveitarmenn á landsleik Íslands og Króatíu.
Sérsveitarmenn á landsleik Íslands og Króatíu. mbl.is/Eggert

Lögreglan reiknar með að álíka mikill fjöldi lögreglumanna verði við störf á landsleik Íslands og Úkraínu 5. september og var á leik Íslands og Króatíu í júní síðastliðnum. Um 120 lögreglumenn voru þá á vakt.

Lögreglan fundaði í fyrsta sinn með Knattspyrnusambandi Íslands í gær vegna viðbúnaðar fyrir leikinn. Ekki er búið að ákveða hversu margir lögreglumenn verða á leiknum.

Hafa fengið heimaleikjabann

„Það koma hátt í 1.000 Úkraínumenn til landsins. Við höfum í huga að þeir hafa fengið heimaleikjabann út af ólátum og níði. Það er ljóst að við þurfum að skoða þennan leik í áttina að því sem við vorum með á móti Króatíu,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður út í fjölda lögreglumanna.

„Hluti af stuðningsmönnum Úkraínu hefur hingað til verið bullur og við þurfum að vera tilbúnir að geta átt við það.“

Alls komu fimmtíu króatískar fótboltabullur á leik Íslands og Króatíu og voru sjö þeirra handteknar fyrir leikinn. 

Lögreglumenn sem stóðu vörð á leik Íslands og Króatíu.
Lögreglumenn sem stóðu vörð á leik Íslands og Króatíu. mbl.is/Hanna

Upplýsingar frá Finnlandi og Úkraínu 

Ríkislögreglustjóri hefur verið í samskiptum við tengiliði í Úkraínu vegna landsleiksins og er beðið eftir svörum við ákveðnum spurningum sem voru lagðar fyrir þá.

Lögreglan hefur þegar fengið upplýsingar frá kollegum sínum í Finnlandi vegna landsleiks Finnlands og Úkraínu sem var háður 11. júní. Að sögn Ásgeirs Þórs reyndi hluti úkraínsku áhorfendanna ýmislegt á leiknum án þess þeim hafi orðið ágengt. Þær upplýsingar verða nýttar fyrir leikinn á Laugardalsvellinum sem hefst eftir tæpar tvær vikur.

Úkraína spilar við Tyrkland þremur dögum fyrir landsleikinn á Íslandi og verða upplýsingar um hegðun stuðningsmannanna í þeim leik einnig nýttar af íslensku lögreglunni.

„Við þurfum að setja talsverðan fjölda lögreglumanna í þetta verkefni, það er alveg ljóst,“ segir Ásgeir Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert