Náði í bændur og fólk var á búinu

Fólk var á búinu og þar af leiðandi var ekkert …
Fólk var á búinu og þar af leiðandi var ekkert sem átti að koma í veg fyrir eftirlit, segir MAST. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar starfsmaður MAST fór í eft­ir­lits­ferð á mjólk­ur­búið Viðvík í Skagaf­irði á fimmtu­dag­inn síðastliðinn og var meinaður aðgang­ur að fjós­inu náði hann í ábúendur á búinu og einnig var fólk á staðnum. Þar af leiðandi var ekkert sem kom í veg fyrir að eftirlit gæti átt sér stað. Þetta kemur fram í tölvupósti frá MAST. 

Þar sem starfsmanni MAST var meinaður aðgangur að fjósinu og eftirlit gat ekki farið fram var dreifing mjólkur stöðvuð á föstudaginn 18. ágúst. Á mánudeginum 21. ágúst fékk hann að fara í eftirlitsferð og voru engar athugasemdir gerðar og því var banninu við dreifingu mjólkur aflétt daginn eftir.  

Guðríður Björk Magnús­dótt­ir, bóndi í Viðvík, gerði einnig athugasemdir við nafnbirtinguna á búinu í samtali við mbl.is og benti á að ekki væri nafngreint þegar til dæmis dýraníðsmál kæmu upp. Samkvæmt upplýsingastefnu MAST er greint frá nafni þegar starfsemi er stöðvuð og nafngreint hefur verið í öðrum sambærilegum fréttum um stöðvun matvælaframleiðslu, þetta kemur einnig fram í skriflegu svari frá MAST. 

Hins vegar ef maður er grunaður um refsiverðan verknað er um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða. Stofnuninni er ekki heimilt skv. upplýsingalögum að veita upplýsingar um viðkvæm einkamál einstaklinga, segir jafnframt í svari frá MAST. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert