Barnaníðingur fékk uppreist æru

Maður sem var dæmdur fyrir að nauðga stjúpdóttur sinni nær daglega frá því hún var um fimm ára gömul þar til hún var tæplega 18 ára fékk uppreist æru 16. september síðastliðinn, sama dag og barnaníðingurinn Robert Downey. Stundin greinir frá þessu.

Maðurinn var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir brotin árið 2004 og gert að greiða stúlkunni eina og hálfa milljón króna í miskabætur. Um er að ræða þyngsta dóm sem fallið hafði vegna kynferðisbrota gegn barni á þessum tíma, en Hæstiréttur taldi einsýnt að maðurinn hefði gerst sekur um „grófa kynferðislega misnotkun gagn­vart kæranda sem stóð yfir í langan tíma, eða um 12 ár allt frá unga aldri hennar“. Maðurinn hefði misnotað freklega vald sitt yfir henni sem stjúpfaðir og valdið henni djúpstæðum skaða.

Í dóminum yfir manninum kemur fram að hann hafi neitað allri sök. Þegar Stundin hafði samband við manninn kvartaði hann undan því að níðst hefði verið á sér og sagðist hafa verið dæmdur án sannana.

„Sko, það er eitt að vera dæmdur án sannana, það er mjög alvarlegt og ég er ekki að hanga í því af því að það hentar mér. Málið er að það er enn verið, þegar þú ert búinn að sitja af þér og búinn með allt saman, þá er enn verið að níðast á þér,“ segir maðurinn. Rétt er að taka fram að bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands töldu fullsannað að maðurinn hefði brotið gróflega og ítrekað gegn stjúpdóttur sinni.

Frétt Stundarinnar í heild

Dómur Hæstaréttar yfir manninum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert