Eiríkur Ingi hjólar umhverfis Írland

Eiríkur Ingi áður en keppni hófst á Írlandi.
Eiríkur Ingi áður en keppni hófst á Írlandi. Mynd/Af Facebook-síðu Hjóla-Eika

„Honum gengur bara vel, hann svaf í morgun og missti náttúrlega flesta fram fyrir sig, en nú þurfa þeir að hvíla sig,“ segir Vilberg Helgason, einn þriggja í fylgdarliði hjólreiðamannsins Eiríks Inga Jóhannssonar, sem nú tekur þátt í langri maraþon-hjólreiðakeppni hringinn í kringum Írland.

Eiríkur Ingi er öflugur hjólreiðakappi og hefur meðal annars þrívegis tekið þátt í Wow-Cyclothon-keppninni hérlendis og stóð uppi sem sigurvegari þar síðasta sumar.

„Við lögðum af stað 16:36 í gær og hann hjólaði til sex í morgun. Hann var fyrstur framan af, þangað til að hann hvíldi sig í morgun og fékk sér góðan svefn til þess að eiga góðan dag fram undan,“ segir Vilberg.

Góður svefn í hjólreiðakeppni sem þessari er þó ekki langur. „Hann er búinn að sofa fjóra tíma núna í það heila. Hann svaf pínu, hjólaði smá og komst að því að hann þyrfti að sofa aðeins meira til að vera ferskur.“

Eiríkur er sem stendur níundi af ellefu keppendum í einstaklingsflokki karla og staddur á nyrsta odda Írlands, Malin Head.

Hægt er að rekja ferðir keppenda og fylgjast með stöðunni í beinni hér.

23.000 metra hækkun

Leiðin sem hjóluð er liggur umhverfis allt Írland, en keppnin hófst í nágrenni Dyflinnar og þaðan var haldið í norður, fram hjá Belfast, höfuðborg Norður-Írlands, og áfram meðfram ströndinni. Alls er leiðin 2.150 kílómetrar, með 23 þúsund metra hækkun.

Samanlögð heildarhækkun á leiðinni er því svipuð og samanlögð hæð hinna þekktu tinda, Everest, K2 og Kilimanjaro.

„Þetta er gríðarleg hækkun. Við erum einmitt búin að vera í stanslausri hækkun núna í ríflega fimmtán mínútur,“ segir Vilberg, en keppendur hafa fimm daga til að ljúka för sinni umhverfis eyjuna.

„Við höfum fram á föstudag til að klára og stefnum á að klára mun fyrr en það, ef hægt er. Fyrsta markmiðið er þó að klára. Miðað við gengið í gær virðist okkur ætla að ganga vel, þó að við vitum ekki alveg hvernig þetta fari enn þá,“ en hann segir líklegt að á morgun verði línur farnar að skýrast frekar, þegar allir keppendur verði búnir að hvíla sig að minnsta kosti tvívegis.

Eiríkur Ingi Jóhannsson hjólreiðamaður.
Eiríkur Ingi Jóhannsson hjólreiðamaður. Kristinn Magnússon.

Umferðin þægileg

Vilberg segir það skemmtilegt að keyra á eftir Eiríki sem leið hans liggur um írsku sveitirnar. „Við erum þrjú með honum, einn sofandi í skottinu núna, ein að keyra og ég að lóðsa. Tíminn líður alveg fáránlega hratt. Í fyrsta lagi er gullfallegt á Írlandi, þó að það sé rigning akkúrat núna, en svo er þetta bara eins og horfa á fótbolta. Þú heldur með þínum manni og fylgist með spenntur þó að það sé ekkert verið að spila rosalega hratt.“

Hann segir umferðina þægilega til hjólreiða, aðallega sé hjólað á hálf-aflögðum sveitavegum. „Þetta er búið að vera mjög gott og engin teljandi þungaumferð sem við höfum lent í. Það er alveg frábært að hjóla hérna á mörgu leyti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert