Íslenskir menn kúgaðir af netskvísum

Það getur verið varasamt að stofna til skyndikynna í gegnum …
Það getur verið varasamt að stofna til skyndikynna í gegnum netið. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkur óvenjuleg fjárkúgunarmál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári, að því er fram kemur í ársskýrslu embættisins.

Í nokkrum málum sem komu upp á vormánuðum 2016 leitaði embættið liðsinnis Europol og bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Þau mál voru öll með sama sniði. Íslenskir karlmenn komust í kynni við erlendar konur í gegnum Facebook og eftir örstutt kynni færðust samskiptin yfir á Skype, bæði í hljóð og mynd, þar sem karlarnir viðhöfðu kynlífstengdar athafnir.

Í kjölfar þess var þeim tilkynnt að athæfi þeirra hefði verið tekið upp á myndband. Það myndband yrði sent til opinberrar birtingar, bæði á YouTube og í skilaboðum til vina mannanna á Facebook, ef ekki bærist peningagreiðsla frá þeim.

Ráðlagt að gera ekkert

Í ársskýrslu LRH kemur fram að karlanir hafi fengið þær ráðleggingar að láta ekki undan hótununum, þar sem viðbúið væri að þær myndu halda áfram þrátt fyrir að peningagreiðslur bærust. Engar fréttir hafa síðan borist til lögreglu af því að myndböndin hafi farið í dreifingu.

Einnig segir í ársskýrslunni að „vafasömu konurnar“ virðist eiga ættir sínar að rekja til Fílabeinsstrandarinnar og að mál sem þessi séu ágætisáminning um mikilvægi þess að fólk sýni aðgát í samskiptum á netinu.

Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Eldri kona sökuð um að keyra á barn

Í desember síðastliðnum kom eldri kona inn á lögreglustöð í borginni og sagði farir sínar ekki sléttar. Daginn áður hafði hún fengið símtal frá manni, sem sakaði hana um að hafa valdið umferðarslysi og ekið á barn.

Hringjandi sagði jafnframt að ekkert yrði gert úr málinu ef hún greiddi honum tiltekna upphæð, en hann myndi koma peningunum til fjölskyldu barnsins. Hann sagði að þetta yrði ódýrara fyrir konuna, því ef málið færi hefðbundna leið í kerfinu gæti hún endað með að fá háa sekt og fangelsisdóm að auki.

Konunni var illa brugðið, enda hljómaði maðurinn sannfærandi og einnig hafði hann sagt rétt til um hvar konan hefði verið á ferðinni þegar hið meinta slys átti að hafa orðið.

Maðurinn bað konuna um að setja peningana í umslag og að hann sjálfur myndi síðan sækja það heim til hennar.

Skemmst er frá því að segja að maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, var handtekinn er hann hugðist sækja peningana hjá konunni.

Fram kemur í ársskýrslu LRH að þetta mál hafi verið nokkuð viðamikið, en lagt var hald á tölvur og síma þágu rannsóknarinnar. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald, en hann var grunaður um að hafa reynt að blekkja fleiri aðila með sömu aðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert