Útiloka ekki bótakröfu á eigin ráðgjafa

Ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar aðgerðir til að …
Ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar aðgerðir til að bjarga höfuðstöðvum Orkuveitunnar. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki er hægt að útiloka að ráðgjafar og hönnuðir, sem Orkuveita Reykjavíkur fékk sérstaklega til að annast val, innkaup og hönnun á útveggjakerfi höfuðstöðvanna, sem eru stórskemmdar vegna rakaskemmda og myglu, séu bótaskyldir vegna aðkomu sinnar að frágangi hússins. Þetta er meðal þess sem dómkvaddur matsmaður mun leggja mat sitt á, en hans hlutverk að skoða hvar mistökin liggja í frágangi og viðhaldi hússins, og leggja mat sitt á hver ber ábyrgð á því hve illa byggingin er farin.

Þetta segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, í samtali við mbl.is. „Við útilokum ekkert í þessu. Við erum ekkert að skella skuld á neinn, heldur metum við stöðuna þegar þessi óháði aðili er búinn að fara yfir það sem leiðir til þess að húsið er stórskemmt,“ segir Eiríkur.

Fram kom á blaðamannafundi fyrir helgi að áfallinn kostnaður vegna myglu í húsi Orkuveitunnar væri 460 millj­ón­ir króna, en kostnaður við viðgerðir verður minnst um 1.700 millj­ón­ir króna. Vesturbygging hússins er talin ónothæf og heilsuspillandi, en hún var rýmd fyrr á þessu ári eftir að borið hafði á heilsubresti starfsmanna.

Eiríkur útilokar ekki að ráðgjafar Orkuveitunnar beri ábyrgð á því …
Eiríkur útilokar ekki að ráðgjafar Orkuveitunnar beri ábyrgð á því hvernig er komið fyrir húsinu. mbl.is

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, sagði í samtali við Morgunblaðið á laugardag að ef matsgerð dómkvadds matsmanns benti til þess að ástæðan fyrir slæmu ástandi hússins væri hönnun þess, röng byggingaraðferð miðað hönnun, eða að eftirliti hafi verið ábótavant yrði málsókn skoðuð. „Eðli málsins samkvæmt heldur Orkuveitan til haga öllum sínum rétti. Hver hann kann að vera vitum við ekki,“ sagði Bjarni.

Verktakinn firrir sig ábyrgð

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, aðalverktaka sem annaðist byggingu höfuðstöðvanna, hefur sagt í fjölmiðlum að hann óttist ekki eftirmál vegna rakaskemmda í byggingunni, enda beri verktakinn ekki ábyrgð á útveggjakerfinu. Verktakinn hafi eingöngu séð um uppsetningu á því samkvæmt fyrirmælum. Kerfið hafi verið fullhannað þegar hann fékk það í hendurnar til uppsetningar.

Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar, sagði í samtali við RÚV um helgina að það hafi legið fyrir frá árinu 2009 að húsið læki, og að þá hafi verið farið í að þétta það að einhverju leyti. Orkuveitan hefur hins vegar gefið út að fyrst hafi farið að bera á raka og myglu í húsnæðinu haustið 2015.

Rúv fjallaði einnig um nýlega skýrslu verkfræðistofunnar Eflu, sem Orkuveitan fól að rannsaka upptök vatnsleka í húsinu. Í henni koma fram margs konar ágallar á uppsetningu útveggjarins. Meðal annars að leki hafi verið í kverkum í gleri og með opnalegum fögum. Frágangur dúks hafi verið ófullnægjandi og komst vatn auðveldlega á bak við hann. Þá hafi álklæðning verið óþétt og ekki vatnsheld.

Núverandi húsnæði hentar starfseminni illa 

Líkt og áður sagði mun þurfa að ráðast í mjög kostnaðarsamar aðgerðir til að gera við húsið og koma því í nothæft ástand á ný. Nokkrar hugmyndir hafa verið viðraðar í því samhengi og sú sem lengst gengur er hreinlega að rífa húsið og byggja nýtt. Bjarni sagði á blaðamannafundinum að núverandi húsnæðið hentaði starfsemi Orkuveitunnar illa „Þetta hús er rúm­lega fimm þúsund fer­metr­ar og nýt­ist ekki mjög vel sem skrif­stofu­rými. Fleiri fer­metra þarf á hvern starfs­mann en í hefðbundnu skrif­stofu­rými. Fyr­ir 1.740 millj­ón­ir mætti byggja jafn­stórt hús­næði sem hentaði starf­semi Orku­veit­unn­ar eða jafn­vel stærra,“ sagði hann á fundinum.

Ráðgjafar hafa hins vegar komið með þrjá valkosti til að bjarga húsinu og gera það nothæft á ný; gera við núverandi veggi, skipta þeim út og byggja nýja, eða byggja einhvers konar regnkápu úr gleri yfir húsið, sem talinn er skársti kosturinn. Bjarni segir þó ómögulegt að segja til um það strax hvaða úrbótatillaga verði valin og hvenær.

Ekki leitað strax til dómstóla

Um næstu skref í málinu segir Eiríkur: „Menn byrja á því að fá þennan dómkvadda matsmann og það er í gangi núna. Þegar niðurstöður hans liggja fyrir þá metur Orkuveitan lagalega stöðu sína á grundvelli þess mats. Annars vegar á ástæðum tjónsins og hins vegar hugsanlegri ábyrgð á þeim,“ segir Eiríkur. „Ef niðurstaðan verður sú að Orkuveitan telur sig hafa réttmæta bótakröfu þá er það fyrst sett fram sem krafa, en ekki farið strax fyrir dómstóla.“

Aðspurður segist Eiríkur ekki vita hvenær dómkvaddur matsmaður komi til með að ljúka sinni vinnu, en eflaust muni hún taka einhverja mánuði. Hann viðurkennir að lýsingar á ástandi hússins hafi komið á óvart. „Það kemur aðallega á óvart að ekki eldra hús sé svona illa farið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert