Sprenging hefur orðið í skráningu rafbíla á Íslandi í sumar. Samtals 1.150 rafbílar voru skráðir nýir á Íslandi í maí, júní, júlí og ágúst, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Orkuseturs Íslands. Á sama tímabili í fyrra voru skráningarnar 382 talsins. Það er þreföld aukning á milli ára.
Í þessum tölum er átt við hreinræktaða rafbíla, sem aðeins ganga fyrir rafmagni, eða rafbíla sem hafa bæði rafhlöður sem hægt er að hlaða, sem og geymi fyrir jarðefnaeldsneyti. Vert er að taka fram að ótaldir eru bílar sem nota jarðefnaeldsneyti til að framleiða rafmagn.
Ríflega 20 þúsund bifreiðar voru nýskráðar á Íslandi fyrstu átta mánuði ársins, samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Það er nánast sami fjöldi nýskráninga og allt árið í fyrra og tvöfaldur sá fjöldi sem var nýskráður allt árið 2014.
Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu hafa 580 hreinir rafbílar verið skráðir á Íslandi á árinu. Við þá tölu bætast 1.228 bílar, sem hvoru tveggja ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og eru búnir rafhlöðum.
Hlutfall hreinna rafbíla, sem aðeins ganga fyrir rafmagni, af nýskráðum bílum var í fyrra 1,8%. Hlutfallið það sem af er þessu ári er 2,9%. Þegar horft er hreinna rafbíla sem og bíla sem hafa bæði rafhlöður og eldsneytistank hefur hlutfall nýskráninga hækkað úr 5,1% í fyrra í 8,4% nú. Aukningin er þannig 65% á milli ára.