Barnaníðingar starfi ekki sem lögmenn

Bergur Þór Ingólfsson á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun.
Bergur Þór Ingólfsson á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fáránlegt er í eyrum almennings að mál um uppreist æru fari inn á borð ráðherra og forseta án þess að þeir hafi nokkuð um málin að segja. Þetta sagði Bergur Þór Ingólfsson á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um uppreist æru.

Dóttir Bergs er ein þeirra stúlkna sem lögmaðurinn Robert Downey braut gegn kynferðislega og hlaut síðan uppreist æru fyrr á þessu ári eftir að hafa afplánað dóm sinn. Hann benti á að Robert hefði aldrei viðurkennt brot sitt og fyrir honum væri uppreist æru til marks um að hann hefði sýnt fram á sakleysi sitt. Sagði hann að lagaákvæði um uppreist æru væru algerlega úrelt.

Lögin hafi þannig verið sett þegar kynferðisofbeldi háttsettra einstaklinga gegn börnum hafi verið látið óátalið. Þrátt fyrir að ábyrgðin væri hjá dómsmálaráðherra færi málið samt í endalausa hringi. Túlka þyrfti lögin í takt við nútímann og réttindi barna. Hann væri ekki með því að kalla eftir því að réttarríkið væri strikað út. Það væri Alþingis að vera arkitektar samfélagsins.

Bergur sagði að hann vildi að lögum yrði breytt hið fyrsta og að þeir sem brytu gegn ólögráða einstaklingi gætu ekki sinnt störfum lögmanna. Eins væri tekið af festu á kynferðisbrotamálum almennt og rifjaði upp fjölda þeirra sem kæmi á neyðarmóttöku Landspítalans. Hann vonaðist til þess að fundurinn yrði upphafið að lokum þessa máls fyrir brotaþola Roberts Downeys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert