17 mánaða ferðalag á 30 sekúndum

Lifandi kort sem sýnir ferðalag flöskuskeytanna tveggja.
Lifandi kort sem sýnir ferðalag flöskuskeytanna tveggja. Kort/ Ragnar Heiðar Þrastarson

Tvö flöskuskeyti sem hönnuð voru af Verkís fyrir Ævar vísindamann skiluðu sér á land fyrr á árinu. Skeytin fóru í sjóinn í janúar 2016. Annað rak á land í Skotlandi eftir rétt tæplega ár í Norður Atlantshafi en hitt í Færeyjum eftir eitt ár og fimm mánuði.

Meðal þeirra sem hafa fylgst með þessu verkefni er Ragnar Heiðar Þrastarson, fagstjóri landfræðilegra upplýsingakerfa á Veðurstofu Íslands. Hann hefur nú hannað svokallað lifandi kort sem sýnir ferðalag skeytanna á skemmtilegan hátt.

„Ég sá tækifærið í þessu verkefni og þeim gögnum sem það skilar til að búa til svona kort,“ segir Ragnar Heiðar í samtali við mbl.is. Á kortinu er hægt að fylgjast með ferðalagi beggja skeytanna á 30 sekúndum.

Ragnar Heiðar Þrastarson, fagstjóri landfræðilegra upplýsingakerfa á Veðurstofu Íslands.
Ragnar Heiðar Þrastarson, fagstjóri landfræðilegra upplýsingakerfa á Veðurstofu Íslands. Ljósmynd/aðsend

Maður getur í rauninni séð sjávarstraumana sem eru umhverfis landið og fylgst með þessu ferðalagi hratt. Þetta gerist hægt í rauntíma, þetta var ferðalag upp á eitt og hálft ár en með þessu spilandi korti nær maður betri yfirsýn yfir þetta,“ segir Ragnar Heiðar.

Skeytin lögðu af stað með dags millibili og segir Ragnar það afar áhugavert hvernig annað skeytið endar í Bretlandi en hitt næstum því á Íslandi, áður en það rak svo á land í Færeyjum. „Skeytin eru meira og minna samferða en svo dregur aðeins á milli þeirra og þá sést hvað sjórinn umhverfis okkur er breytilegur.“

Hér má skoða ferðalag skeytanna á korti Ragnars Heiðars: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert