Með lifandi mann í vírnum

Æfing áhafnar þyrlunnar TF-GNA og varðskipsins Þórs.
Æfing áhafnar þyrlunnar TF-GNA og varðskipsins Þórs. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru komnar til ára sinna segir Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri hjá Landhelgisgæslu Íslands en algjört lágmark sé að hafa yfir þremur þyrlum að ráða. „Við þyrftum helst að hafa fjórar góðar þyrlur svo hægt sé að tryggja að tvær vélar séu alltaf klárar.“

Blaðamaður Morgunblaðsins og ljósmyndari fengu að fylgjast með æfingu áhafnar TF-GNA í vikunni.

„Við höfum reynt að hafa þann háttinn á að um 25% af öllum okkar flugum eru æfingar, en það hefur hins vegar breyst mjög að undanförnu með síauknum útköllum. Hlutfall æfinga hefur því minnkað nokkuð,“ sagði Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri hjá Landhelgisgæslu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa það sem af er ári verið kallaðar út um 190 sinnum, en á sama tíma í fyrra voru útköllin 175 talsins. Allt árið 2016 voru þyrluútköll Gæslunnar 251, árið 2015 voru útköllin 218 og 195 árið 2014. Í langflestum tilfellum var um að ræða leit og björgun eða sjúkraflutninga, en í nokkrum tilvikum tengdust útköll þyrlusveitar löggæsluverkefnum.

Spilmaður gefur „go“ til starfsmanna á jörðu niðri fyrir flugtak.
Spilmaður gefur „go“ til starfsmanna á jörðu niðri fyrir flugtak. Árni Sæberg

Aðspurður sagði Sigurður Heiðar talsverða fjölgun vera nú í útköllum á landi. „Við erum að sjá mun fleiri útköll inni á landi en áður vegna aukins fjölda fólks þar,“ sagði Sigurður Heiðar, en þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur nú þegar á þessu ári sinnt útköllum í öllum landsfjórðungum sem og á miðunum í kringum landið.

 Mikilvæg æfing framundan

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar tók síðastliðinn þriðjudag þátt í æfingu úti fyrir Grindavík ásamt varðskipinu Þór. Fengu Moggamenn að fylgjast með æfingunni úr gæsluþyrlunni TF-GNA, en Sigurður Heiðar var flugstjóri ferðarinnar og við hlið hans í flugstjórnarklefanum var Tryggvi Steinn Helgason flugmaður. Í hverri áhöfn eru, auk tveggja flugmanna, spilmaður og sigmaður ásamt lækni frá Landspítalanum. Í umræddri ferð var hins vegar lækni skipt út fyrir kafara Landhelgisgæslunnar og heitir sá Aron Karl Ásgeirsson. Á spilinu var Daníel Hjaltason og sigmaður ferðarinnar heitir Gísli Valur Arnarson.
Tryggvi Steinn tók á móti blaðamanni og ljósmyndara við aðstöðu Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli og var haldið rakleiðis inn í aðgerðarými þar sem menn voru að leggja lokahönd á allan undirbúning. Við tók stutt kynning á markmiðum æfingarinnar, að hífa menn upp úr sjó, og fengu flugmenn því næst nýjustu veður- og vindaspá í hendurnar. Að þessu loknu var lagt af stað.
Sigurður Heiðar Wiium flugstjóri (t.v.), Daníel Hjaltason spilmaður, Gísli Valur …
Sigurður Heiðar Wiium flugstjóri (t.v.), Daníel Hjaltason spilmaður, Gísli Valur Arnarson sigmaður og Tryggvi Steinn Helgason flugmaður. Árni Sæberg

 Flogið þétt upp við skipið

„Æfing sem þessi er okkur nauðsynleg. Við verðum að vera með þessa hluti á hreinu til að geta verið til taks í raunverulegum aðstæðum,“ sagði Sigurður Heiðar, en að loknu flugtaki var stefnan fljótlega tekin í átt að Grindavík þar sem Þór beið skammt frá landi.

„Visual,“ sagði Tryggvi Steinn þegar enn var flogið yfir föstu landi á Reykjanesi, en hann hafði þá rekið augun í Þór sem var í þónokkurra kílómetra fjarlægð. Eftir því sem þyrlan nálgaðist varðskipið lækkaði hún flugið og var komið bakborðsmegin upp að Þór. Var þá komið að Daníel sem var búinn að opna hliðardyrnar stjórnborðsmegin á TF-GNA. Út fóru sigmaðurinn Gísli Valur og kafarinn Aron Karl og sigu þeir niður á dekk varðskipsins. Á meðan á þessu stóð var þyrlunni handflogið yfir Þór.

„Fylgstu vel með strompunum,“ heyrðist í öðrum flugmanni vélarinnar á meðan flogið var þétt yfir varðskipinu.

„Þetta er samspil margra þátta,“ sagði Sigurður Heiðar og vísar til þess þegar þyrlu er flogið yfir skip. „Við erum að voka yfir skipi sem er á fleygiferð í allar áttir og þurfum því að passa bæði hæð og stöðu mjög vel. Að gera þetta að nóttu til við vondar aðstæður er mjög hættulegt og erfitt – það er lifandi maður í vírnum og við þurfum því að passa að hreyfa okkur eins lítið og mögulegt er til að slasa engan,“ sagði hann.

Aron Karl Ásgeirsson kafari (t.h.) seig um borð í v/s …
Aron Karl Ásgeirsson kafari (t.h.) seig um borð í v/s Þór. Árni Sæberg

Því næst var þyrlunni flogið frá Þór og vörpuðu varðskipsmenn þá björgunarbát í sjóinn. Var nú komið að því að bjarga tveimur mönnum úr áhöfn Þórs úr hafinu auk þess sem tveimur dúkkum var einnig kastað frá borði. Þyrlan tók sér stöðu yfir mönnunum og voru þeir hífðir um borð einn af öðrum. Var það í höndum Daníels að sjá til þess að menn kæmust heilir inn úr vírnum, en sjálf björgunin tók skamman tíma.

Flugmennirnir Tryggvi Steinn (t.v.) og Sigurður Heiðar í flugstjórnarklefanum.
Flugmennirnir Tryggvi Steinn (t.v.) og Sigurður Heiðar í flugstjórnarklefanum. Árni Sæberg
Daníel Hjaltason spilmaður situr í hurðinni á TF-GNA og horfir …
Daníel Hjaltason spilmaður situr í hurðinni á TF-GNA og horfir á v/s Þór. Árni Sæberg



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert