Ekkert mál að vera ung móðir á þingi

Eva í móðurhlutverkinu ásamt dóttur sinni Árneyju. Eva tók fæðingarorlof …
Eva í móðurhlutverkinu ásamt dóttur sinni Árneyju. Eva tók fæðingarorlof á vorþingi til að missa ekki af fyrstu mánuðum hennar.

Á síðasta ári tókst Eva Pandora á við tvö ný og stór hlutverk í lífi sínu en með stuttu millibili var hún kjörin þingmaður og eignaðist sitt fyrsta barn. Hún segir það hafa verið dálítið yfirþyrmandi en vanist vel.

„Maður tekst á við þær áskoranir sem maður tekur sér fyrir hendur. Þetta er vissulega erfitt og mjög krefjandi, en á sama tíma er þetta mjög gefandi,“ segir Eva sem býr ásamt unnusta og dóttur á Sauðárkróki en þau hafa aðsetur í Reykjavík yfir vetrartímann.

Að vera þingmaður er ekki hefðbundið starf heldur meira eins og lífsstíll. Þetta er ekki vinna sem þú getur farið í frá átta til fjögur og farið svo bara heim að hugsa um heimilið. Þú ert alltaf með hugann við vinnuna því hún er úti um allt; á samfélagsmiðlum og í fréttum. Oft vill það svo líka gerast að dagskrá þingsins breytist hratt og þingmenn fá lítinn tíma til að undirbúa sig fyrir mál sem tekin verða fyrir. Þá verður maður að nýta kvöldin heima.“ Þetta segir Eva Pandora Baldursdóttir, þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi, spurð hvernig það sé að vera nýr þingmaður á Alþingi.

Eva Pandora segir að Alþingi sé fjarri því að vera eins og hver annar vinnustaður.

„Þetta er algjörlega ólíkt öllu því sem ég hef gert áður svo að ég get ekki með góðu móti líkt þessu við hefðbundinn vinnustað.“

Yfirþyrmandi að verða móðir og þingmaður á sama tíma

Eva að störfum á þingflokksfundi Pírata síðastliðið vor.
Eva að störfum á þingflokksfundi Pírata síðastliðið vor. mbl.is/Brynjar Gunnarsson


Á síðasta ári tókst Eva Pandora á við tvö ný og stór hlutverk í lífi sínu en með stuttu millibili var hún kjörin þingmaður og eignaðist sitt fyrsta barn.

„Það var mjög sérstakt að fara í tvö gríðarlega veigamikil hlutverk á sama tíma. Ég ætla ekkert að skafa utan af því; að verða bæði móðir og þingmaður í fyrsta sinn á sama tíma var dálítið yfirþyrmandi. En það vandist vel, maður bara tekst á við þær áskoranir sem maður tekur sér fyrir hendur. Þetta er vissulega erfitt og mjög krefjandi, en á sama tíma er þetta mjög gefandi. Ég nota þessi sömu lýsingarorð bæði yfir það að vera móðir og þingmaður.“

Spurð hvernig það hafi gengið að sameina móðurhlutverkið og þingstörfin segir Eva Pandora það hafa gengið ágætlega þrátt fyrir ófjölskylduvænan vinnutíma þingmanna oft og tíðum.

„Það hefur örugglega ekki reynst mér erfiðara en öðrum og það á líka við um feður. Það er auðvitað einnig fullt af feðrum á þingi sem þurfa alveg jafn mikið að eyða tíma með fjölskyldunni og mæður. Í dag eru það undantekningartilvik að annað foreldrið sé heimavinnandi og fæstir hafa ef til vill efni á því. Nútímaforeldrar eru á vinnumarkaðnum og reyna að samræma vinnu og fjölskyldulíf eins vel og hægt er.“

Ekki fjölskylduvæn vinna

Eva Pandora Baldursdóttir á skrifstofu sinni í Reykjavík. Hún segir …
Eva Pandora Baldursdóttir á skrifstofu sinni í Reykjavík. Hún segir þingmennsku ekki fjölskylduvæna vinnu. Hún telur markvissara og skilvirkara að dreifa álaginu. Minnka skorpuvinnu og stytta jóla- og sumarleyfi. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Eva Pandora segir að þótt starfið sé áhugavert hafi hún samt sem áður nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs.

„Ég tók mér mitt fæðingarorlof, ég ákvað að vera ekkert að stytta það neitt þótt ég væri komin inn á þing. Þótt ég hafi mjög mikinn áhuga á þessu starfi var það ekki þess virði að missa af fyrstu mánuðunum í lífi dóttur minnar, það er tími sem maður fær aldrei aftur, þannig að ég ákvað að taka mér fæðingarorlof á síðasta vorþingi, varaþingmaðurinn minn hljóp í skarðið fyrir mig. Ég kom svo inn aftur 1. júní síðastliðinn og er búin að vera að vinna í sumar. Það hefur samt verið rólegra í sumar en vaninn er á veturna svo ég hef fengið smá aðlögunartíma áður en allt byrjar á fullu.“

Að sögn Evu Pandoru er gott að hefja störf að sumri, þá sé minna að gera og því auðveldara að setja sig inn í starfið og undirbúa sig fyrir komandi þingár. Þó sé eitt sem henni finnst ábótavant.

„Þetta er frekar ófjölskylduvæn vinna. Vinnutíminn er mjög óhentugur og Alþingi sem slíkt hefur ekki verið mjög barnvænt. Unnur Brá, forseti Alþingis, lét setja upp skiptiborð inni á baðherbergjum og barnastóla í matsalinn en það hafði aldrei verið áður. Það kom til þegar Unnur Brá tók við forsetaembættinu og hún fær mikið hrós fyrir það því oft kemur fyrir að maður þarf að vera með barnið með sér í vinnunni,“ segir Eva Pandora. Hún segist lítið skilja hvers vegna vinnutími Alþingis sé keyrsla nokkrum vikum fyrir þinglok á móti löngum sumar- og jólafríum.

Eva á góðri stundu ásamt eiginmanni sínum, Daníel Valgeiri Stefánssyni. …
Eva á góðri stundu ásamt eiginmanni sínum, Daníel Valgeiri Stefánssyni. Þau búa í Reykjavík á starfstíma þingsins, annars á Sauðárkróki.


„Ég er ekki bara að tala fyrir hönd mæðra heldur er þetta óhentugt fyrir alla þingmenn sem eiga fjölskyldur. Við vinnum í rosalegum skorpum, það er mikið að gera og rétt fyrir þinglok hverju sinni, fyrir til dæmis jól og sumarfrí, eru þingmenn að vinna langt fram eftir í allt að tvær til þrjár vikur. En á móti koma mjög löng frí. Mér þætti miklu eðlilegra að dreifa álaginu aðeins og vinna þá bara á eðlilegum tímum, jafnt og þétt allt árið. Ekki vera að taka svona löng jóla- og sumarfrí. Ég held að það yrði miklu markvissara og skilvirkara.“

Að mati Evu er ekkert því til fyrirstöðu að stytta sumarfrí þingmanna.

„Fyrst hinn almenni launþegi í landinu getur unnið allt árið og tekið sér hefðbundnar sex vikur í sumarfrí skil ég ekki af hverju Alþingi getur ekki gert það líka. Ég myndi halda að það væri mun skilvirkara að vinna þetta jafnar og þéttar. Þá kemur ekki þessi mikla pressa fyrir hver þinglok.“

Spurð hvort það skipti ekki miklu máli að hafa gott og skilningsríkt stuðningsnet þegar maður er þingmaður svarar Eva Pandora játandi.

„Unnusti minn var heimavinnandi í allt sumar á meðan ég var að vinna og honum líkaði það bara mjög vel. Þá fékk hann sinn tíma með dóttur okkar, hann var að vinna á meðan ég var í fæðingarorlofi svo þetta var fín skipting.“

Eva Pandora og unnusti hennar, Daníel Valgeir Stefánsson, ólust bæði upp á landsbyggðinni, hún á Sauðárkróki og hann á Blönduósi. Hvar þau dvelja hverju sinni fer eftir vinnutíma Evu Pandoru.

„Við búum á Sauðárkróki en höfum aðsetur í Reykjavík til þess að vera á veturna, þannig að við erum í borginni á meðan þing er í gangi. Annars væri ég ein í Reykjavík fjóra til fimm daga vikunnar og myndi þá ekkert hitta dóttur mína og mann neitt að ráði,“ segir Eva Pandora. Hún segist ekki vera eini þingmaðurinn af landsbyggðinni sem glímir við miklar vinnutengdar vegalengdir.

„Ég hef heyrt þetta frá fleiri núverandi og fyrrverandi þingmönnum sem búa á landsbyggðinni. Mér þykir eðlilegast að landsbyggðarþingmenn búi heima í sínu kjördæmi til að missa ekki þá tengingu sem fylgir því að búa á landsbyggðinni en eðli starfsins vegna þurfum við að vera í Reykjavík flesta daga. Það er meira en bara að segja það að foreldrar hitti ekki börnin sín fjóra til fimm daga vikunnar. Sem betur fer gat Daníel fengið sig lausan frá vinnu fyrir norðan til þess að við gætum verið í borginni á veturna, en svo erum við alltaf heima á Króknum á sumrin, yfir jólin, á löngum helgum og annað slíkt.“

Að mati Evu Pandoru er alveg kominn tími á að nútímavæða Alþingi.

„Miðað við hvernig tækninni hefur fleygt fram fyndist mér það eðlileg þróun að einhver hluti vinnunnar á Alþingi gæti farið fram í gegnum netið þannig að þingmenn gætu verið meira heima í sínum kjördæmum án þess að missa af. Það gæti alveg verið kominn tími á að uppfæra störf Alþingis yfir á 21. öldina. Það væri allavega algjörlega í anda Pírata,“ segir Eva Pandora og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert