Afi skellti sér í flugnám með sonarsyni

Fyrir tveimur árum fór Jónas Orri Matthíasson í kynnisflug ásamt afa sínum og nafna, Jónasi Matthíassyni, og átti flugferðin heldur betur eftir að hafa áhrif á líf þeirra beggja með jákvæðum hætti. Annar tók ákvörðun um að láta gamlan draum rætast á meðan hinn fann framtíðarstarfið. Þeir voru varla lentir eftir ferðina þegar þeir voru báðir búnir að skrá sig í flugnám hjá flugfélaginu Geirfugli.

„Þegar afi varð sjötugur þá fórum við í kynnisflug saman. Við flugum saman yfir Nesjavalla- og Þingvallasvæðið og þá var ekki aftur snúið. Við ákváðum báðir að skrá okkur strax í nám og þar sem ég var ennþá í menntaskóla þá skráðum við okkur á sumarnámskeið,“ segir Jónas hinn yngri um hvernig það æxlaðist að afi og barnabarn fóru að læra flug saman.

Blaðamaður hittir nafnana í Fluggörðum við Reykjavíkurflugvöll. Þar standa þeir hnarreistir með kennsluvélina á milli sín, afinn og sonarsonurinn, báðir flugmenn. Annar rúmlega sjötugur og hinn rúmlega tvítugur. Sá yngri búinn að ljúka einkaflugmannsprófi, að hefja atvinnuflugnám, en sá eldri kominn með sólóflugmannspróf og aðeins nokkrum flugtímum frá einkaflugmannsprófinu.

Sá elsti til að hefja námið

Jónas hinn eldri er 73 ára og er elsti einstaklingurinn sem lokið hefur sólóflugmannsprófi hjá flugfélaginu Geirfugli. Hann er jafnframt sá elsti sem verið hefur í einkaflugmannsnámi hjá flugfélaginu. Hann getur þó ekki sagt með vissu hvort hann er elsti Íslendingurinn til að ná þessum áfanga, en það verður að teljast ansi líklegt.

Líkt og áður sagði er hann aðeins hársbreidd frá því að ljúka einkaflugmannsprófinu, en þegar sonarsonurinn segir þetta alveg að koma hjá honum, þá hlær afinn og segir honum að fara ekki fram úr sér. Þetta sé nú ekki alveg í höfn. „Þetta stendur þannig að fyrir hvern einn tíma sem hann tekur, þá þarf ég að taka tvo,“ útskýrir Jónas eldri. Það tekur hann því lengri tíma að ljúka náminu. Skýringin á þessu misræmi liggur væntanlega í aldursmuninum, en það er óþarfi að hafa hátt um það.

Nafnarnir tveir eru sammála um að flugið hafi gert þá …
Nafnarnir tveir eru sammála um að flugið hafi gert þá enn nánari. mbl.is/Hallur Már

„Ég er búinn að taka bóklega hlutann og sólóflugmannsprófið, þannig ég má fljúga einn undir eftirliti. Ég á eftir taka kannski tvo tíma og þá get ég klárað. Þá má ég fljúga með farþega, en ég má ekki taka mikinn pening fyrir það,“ segir hann kíminn.

Þeir byrjuðu saman í bóklega náminu sumarið 2015 og tóku verklega tíma samhliða því. Svo kom smá hlé á náminu af óviðráðanlegum orsökum. „Það var veður og annað sem spilaði inn í. Veðrið var hundleiðinlegt og það leið langur tími á milli flugtíma. Mér fannst ég alltaf vera í sömu sporunum. Maður þarf að vera í stöðugri þjálfun annars missir maður þetta niður,“ segir sá eldri. Jónas yngri segir skort á flugkennurum líka hafa spilað inn í. „Þegar allir flugmenn fá vinnu sem flugmenn þá er enginn til að kenna.“

Valdi verkfræðina fram yfir flugið á sínum tíma

Þegar Jónas hinn eldri skráði sig í námið sá hann ekkert endilega fyrir sér að hann yrði flugmaður. Hann langaði bara kynna sér bóklega hluta námsins og læra aðeins um flugið.

„Þetta var þannig að ég mig langaði að fara með honum, allavega í bóklega námið, af því þetta var nú gamall draumur frá því í gamla daga. Ég þurfti á sínum tíma að velja hvort ég ætlaði í verkfræði eða í flug. Ég var tvígstígandi með þessa ákvörðun en hugsaði með mér að það væri öruggara að fara í verkfræði. Þetta var á þeim tíma sem maður hljóp ekkert í flugmannsstarfið. Það er ekki fyrr en ég er hættur í verkfræðinni að ég gríp tækifærið núna,“ segir hann og gleðin yfir þeirri ákvörðun leynir sér ekki. „Það er kannski of seint, en skítt með það. Er á meðan er,“ bætir hann við.

Að sjálfsögðu gat hann ekki látið staðar numið við bóklega námið, enda jókst áhuginn með hverjum tímanum, og nægur var hann fyrir. „Þegar við fórum að fara í loftið þá varð þetta enn meira gaman. Ég framlengdi þetta því aðeins og ákvað að dröslast áfram í sólóprófið. Svo þegar það var komið, þá var fyrst gaman,“ segir hann og skellir uppúr.

Jónas eldri tekur þó skýrt fram að gleðin hafi ekki falist í því að losna við flugkennarana, enda hafi þeir verið hver öðrum betri og tekið honum mjög vel. Þó hann hafi verið aðeins eldri en aðrir. „Ég hef aldrei fundið fyrir því að ég sé eitthvað úreltur. Kannski hefur einhver hrist hausinn bak við hurð, en það er bara eðlilegt,“ segir hann hlæjandi. „Þetta eru fagmenn fram í fingurgóma.“

Aðspurðir segja þeir ekkert aldurstakmark vera í fluginu. Menn geti flogið svo lengi sem þeir standast læknisskoðun, en fara þarf í slíka á hverju ári.

Horfði dreyminn á flugvélarnar út um gluggann 

Áhugi Jónasar eldri á flugi og flugvélum hefur alltaf verið mikill og þrátt fyrir að hann hafi valið verkfræðina á sínum tíma, var draumurinn um að verða flugmaður aldrei langt undan. Háskóli Íslands var stundum aðeins of nálægt Reykjavíkurflugvelli fyrir ungan mann með flugdellu.

Það var ekki aftur snúið þegar Jónas eldri og yngri …
Það var ekki aftur snúið þegar Jónas eldri og yngri skelltu sér í kynnisflug fyrir þremur árum. mbl.is/Hallur Már

„Ég man eftir því þegar ég byrjaði í verkfræðinni í háskólanum. Þá var ég í aðalbyggingunni og glugginn snéri út að Reyjavíkurflugvelli. Þá voru að fara í loftið Skymaster-vélarnar, gömlu fjögurra hreyfla. Þær fóru í gang með miklum látum og það fór ekki á milli mála hvenær maður átti að líta upp úr bókunum, hætta að fylgjast með kennslu og horfa á það sem máli skipti.“

Jónas viðurkennir að það hafi stundum verið erfitt að sitja yfir verkfræðibókunum og mæna út á flugvöllinn. Hann rifjar upp þegar Gullfaxi, fyrsta þota Íslendinga, kom til landsins árið 1967. „Þá fór ég á reiðhjóli út á völl. Það var mótttaka og fólk safnaðist saman til að taka á móti vélinni. Ég man að flugstjórinn var hálfur út um gluggann til að setja íslenska fánann í statíf. Þetta var meiriháttar athöfn,“ segir hann dreyminn á svip þegar hann hugsar til baka.

Fékk að prófa flughermi hjá afa

Jónas yngri bendir á að afi hafi samt látið flugmannsdrauminn rætast að einhverju leyti þegar hann fékk sér flughermi (flight simulator) í tölvuna sína fyrir nokkrum árum. Það var einmitt þar sem áhuginn hjá þeim yngri kviknaði fyrst á fluginu. „Mér þótti voðalega gaman að fljúga þar. Aðalsportið var reyndar að taka stærstu flugvélarnar og lenda þeim á minnstu flugvöllunum, sem er ekki hægt í alvörunni.“

Jónas yngri var, eins og afi sinn, tvístígandi með hvað hann langaði að læra, en flugið togaði og hann sér ekki eftir því að hafa valið þessa leið. „Þetta verður bara skemmtilegra og skemmtilegra. Það er allt önnur tilfinning núna en þegar ég var í náminu. Nú er ég að fljúga á eigin forsendum og get flogið með farþega.“

Hann hefur reyndar enn ekki flogið með afa sinn sem farþega en stefnir á að gera það sem fyrst. Ekki nema afi hans verði á undan til að fljúga með hann. „Við þurfum bara að hitta á réttan tíma, en það kemur. Hann verður líka að fá að klára sitt. Ég vil ekki hafa hann alveg brakandi ferskan úr náminu, svo hann fari nú ekki að dæma mig,“ segir Jónas yngri sposkur.

Spurður hvort hann fari nú ekki að hætta þessu

En hvernig tilfinning er það fyrir Jónas eldri að fá loksins að fljúga, eftir að hafa dreymt um það svo lengi? „Þetta er mjög góð tilfinning. Ég hef ferðast mikið með litlum rellum um ævina út af vinnu, og lent í ýmsu misgóðu, en þegar maður situr sjálfur og stýrir þá er maður kominn með allt aðra vídd. Þá er maður kominn með tenginguna. Þegar maður er farinn að stjórna vélinni þá getur maður ekki sleppt neinu.“

Jónas eldri viðurkennir að uppátæki hans, að læra að flug á gamals aldri, hafi framkallað blendin viðbrögð hjá vinum og vandamönnum. „Það voru einhverjir sem spurðu hvað ég væri að þvælast í svona, hundgamall karl,“ segir hann, en sonarsonurinn hefur aldrei efast um afa sinn í flugnáminu. „Það hefur aldrei verið neitt vantraust hjá mér.“ Sá eldri segist stundum spurður hvort hann ætli ekki að fara að hætta þessu, en það ætlar hann svo sannarlega ekki að gera. „Ég herðist bara allur upp við að heyra svona.“

Nafnarnir tveir hafa alltaf átt í góðu sambandi og verið frekar nánir, að eigin sögn, en þeir eru sammála um að sameiginlegt áhugamál þeirra hafi gert gott samband enn betra. „Áður fyrr fórum við saman í veiðiferðir, til dæmis upp í Hvammsvík. Nú er það flugið og það hefur bara tvíeflt sambandið ef eitthvað er,“ segir Jónas yngri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert