„Ekki fyrir eina þjóð að höndla“

Kanadíski ísbrjóturinn Pierre Radisson sem tók þátt í æfingunum.
Kanadíski ísbrjóturinn Pierre Radisson sem tók þátt í æfingunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþjóðlega leitar- og björgunaræfingin Arctic Guardian 2017 hefur gengið mjög vel, að sögn Georgs Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslu Íslands.

„Það sem er sérstakt við þessa æfingu er að þarna eru margar þjóðir með mismunandi búnað og vinnuaðferðir en það hefur náðst að tengja þetta saman og virkja björgunarstöðvar á öllu norðursvæðinu þannig að allir vinni saman,“ segir Georg.

Á miðvikudag og fimmtudag voru tvenns konar æfingar. Fyrst fór fram leit að skemmtiferðaskipi sem hvarf af skjám og ekki náðist í. Æft var hvernig bregðast átti við slíku tilfelli. Af því tilefni var sex björgunarbátum úr flugvél Landhelgisgæslunnar varpað í sjóinn og leit gerð að þeim.

Æfingin í gær var skipulögð þannig að flutningaskip frá Grænlandi til Íslands missti mann fyrir borð og fór fram leit að honum. „Þarna voru samskiptin fyrst og fremst æfð, reynt að virkja þessar stjórnstöðvar á norðurslóðum,“ greinir Georg frá.

Georg Kr. Lárusson.
Georg Kr. Lárusson. mbl.is/Styrmir Kári

Æfa að virkja allt sem til er

Spurður hvernig þjóðirnar séu í stakk búnir ef olíuslys yrði á norðurslóðum út frá mögulegum olíuborunum segir hann að Íslendingar séu nokkuð vel undirbúnir og hafi á öflugri Landhelgisgæslu að skipa og vel þjálfuðu fólki.

„Hins vegar eru svona atvik þess eðlis að það ræður engin þjóð við það á eigin spýtur og þess vegna er æfingin haldin. Menn gera sér grein fyrir því að þetta er ekki fyrir eina þjóð að höndla, stórt skemmtiferðaskip eða olíumengun. Meginniðurstaða æfingarinnar er að þetta er verkefni sem við þurfum að vinna saman að. Þess vegna erum við að æfa það að virkja allt sem til er.“

Í fyrramálið verður efnt til sérstakrar æfingar á Kollafirði þar sem æfð verða viðbrögð við eldsvoða eða leka um borð í skipi. Æfingin fer að mestu fram í kanadíska ísbrjótnum Pierre Radisson en öll skipin á Arctic Guardian taka þátt í henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert